Emil Dagsson var nýverið ráðinn ritstjóri Vísbendingar, vikurits um viðskipti, efnahagsmál og nýsköpun sem gefið er út af Kjarnanum miðlum. Emil hefur þegar ritstýrt fyrstu útgáfu sinni en hún kom út síðastliðinn föstudag. Hann tekur við starfinu af Jónasi Atla Gunnarssyni sem hafði ritstýrt Vísbendingu síðan í mars 2020, en Jónas er fluttur til Bretlands þar sem hann sinnir ráðgjafastörfum. Kjarninn miðlar keyptu útgáfuna sumarið 2017.
Emil er hagfræðingur að mennt með B. Sc-gráðu frá Háskóla Íslands og M. Sc.-gráðu í fjármálahagfræði frá sama skóla auk þess sem hann tók eitt ár í grunnnámi í Sjanghæ í Kína. Emil er sem stendur, samhliða störfum sínum sem ritstjóri, í doktorsnámi í hagfræði undir handleiðslu Gylfa Zoega og kennir fjármálatölfræði í meistaranámi við hagfræðideild.
Emil segir það mikinn heiður að taka við keflinu sem ritstjóri Vísbendingar. „Ritið hefur verið leiðandi í umræðu um viðskipti og efnahagsmál á Íslandi allt frá níunda áratugnum og hlakka ég til þess að beita mér fyrir því að brúa bil milli frétta og fræðirita.“
Vísbending er vikurit um viðskipti, efnahagsmál og nýsköpun sem hefur komið út óslitið síðan árið 1983. Þar birtast greinar eftir marga af færustu hagfræðingum landsins á aðgengilegu máli. Áskrifendur að ritinu starfa í öllum kimum samfélagsins. Markmið Vísbendingar er að miðla fróðleik sem nýtist forystufólki í atvinnulífi og stjórnmálum. Ritið á að gefa heiðarlega mynd af íslensku viðskipta- og efnahagslífi, og stuðla að hreinskiptinni umræðu um frjáls viðskipti á Íslandi og við önnur lönd. Vísbending kemur út vikulega allt árið um kring, með fáeinum undantekningum. Áskrifendum að prentútgáfu Vísbendingar berst einnig yfirlit yfir þær greinar sem birst hafa allt árið um kring. Kjarninn miðlar ehf. eignaðist útgáfu Vísbendingar sumarið 2017 og hefur gefið ritið út í óbreyttri mynd síðan.