Utanríkisráðuneytið deilir ekki mati alþjóðlegra stéttarfélaga sem telja að TISA-samkomulagið muni auka hagnað alþjóðlegra stórfyrirtækja á kostnað réttinda þeirra og hagsæld þeirra sem verra hafa það. Markmiðið með þátttöku Íslands í TISA-viðræðunum er að gera íslensk fyrirtæki sem stunda þjónustuviðskipti „betur samkeppnishæf á heimsvísu og draga úr viðskiptahindrunum“. Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um TISA-viðræðurnar.
Ráðuneytið svarar því ekki beint hvort Ísland sé að gefa frá sér rétt til aðgerða með því að taka þátt í TISA-samkomulaginu, en alþjóðleg stéttarfélög hafa gagnrýnt að það muni koma í veg fyrir að ríkisstjórnir geti gripið til aðgerða á þjóðréttarlegum grunni á þeim sviðum sem samkomulagið mun ná yfir. Í svari ráðuneytisins við þeirri spurningu segir: „Ísland, í gegnum þátttöku sína í TISA viðræðunum, hefur tækifæri til þess að hafa áhrif á niðurstöðu samningsins. Mikilvægt er að í samningum sé tekið tillit til hagsmuna íslenskra fyrirtækja og tryggja sem best aðgengi íslenskra þjónustuveitenda á erlendum mörkuðum. Sem aðilar að GATS og öðrum fríverslunarsamningum höfum við gengist við svipuðum skuldbindingum.“
Utanríkisráðuneytið svarar því heldur ekki beint hversu margir embættismenn komi að TISA-viðræðunum: „Eins og venja er með samningsviðræður af þessu tagi er enginn einn með málið, heldur er þetta samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins, fagráðuneyta og undirstofnana þeirra auk fastanefndar Íslands í Genf. Þannig eru margar hendur sem koma að þessu verkefni, samhliða öðrum.“
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_06_26/24[/embed]
Hagsmunir fyrirtæki og aðgengi mikilvægir
Megináhersla Íslands í viðræðunum er á að ná sem bestum kjörum fyrir fyrirtæki á sviði hátækni og orkumála og á sviði alþjóðlegra sjóflutninga. „Ísland og Noregur standa sameiginlega fyrir hugmyndum vegna orkutengdrar þjónustu en íslensk fyrirtæki eiga mikilla hagsmuna að gæta í útflutningi á þjónustu tengdri jarðhita og vatnsaflsvirkjunum. Þá hefur utanríkisráðuneytið kallað eftir upplýsingum um hagsmuni íslenskra fyrirtækja á sviði þjónustuviðskipta erlendis í samstarfi við ... hagsmunasamtök fyrirtækja á þessu sviði,“ segir í svari ráðuneytisins, sem Urður Gunnarsdóttir, fjölmiðlafulltrúi þess, er skrifuð fyrir.
Í svarinu segir að tilboð Íslands í viðræðunum sé að mestu leyti hið sama og lagt var fram í Doha-samningaviðræðunum um aukið frelsi í heimsviðskiptum, sem fóru fram innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og hófust árið 2001. Pattstaða hefur verið uppi í þeim viðræðum árum saman, aðallega vegna þess að mörg ríki, meðal annars Ísland, hafa lagt áherslu á að vernda rétt sinn til að niðurgreiða landbúnað. Eini munurinn á Doha og TISA-tilboðinu er sá að „metnaði Íslands á sviði orkutengdrar þjónustu er bætt við“.
Þetta er brot úr áframhaldandi umfjöllun Kjarnans um TISA-viðræðurnar. Lestu hana í heild sinni hér.