Til skoðunar er hjá stýrinefnd um losun hafta að stækka framkvæmdahóp sem heyrir undir hana. Engin ákvörðun hefur hins vegar verið tekin um það. Í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið segir að „komi til þess verður það tilkynnt formlega þegar frá því hefur verið gengið“.
Ástæða fyrirspurnar Kjarnans var fréttatilkynning frá MP banka sem send var til fjölmiðla 9. janúar síðastliðinn. Fyrirsögn hennar var „Framkvæmdastjóri hjá MP banka vinnur að losun fjármagnshafta“. Sá sem um ræðir heitir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri eignastýringar hjá MP banka, og var tiltekið að hann myndi fá tímabundið leyfi frá störfum frá 15. janúar, sem var síðasta fimmtudag. Í tilkynningunni sagði að „á meðan á leyfi Sigurðar stendur mun hann vinna fyrir stjórnvöld að losun fjármagnshafta“.
Hjá Cleary Gottlieb Steen & Hamilton starfar lögmaðurinn Lee Buchheit, sem leiddi á sínum tíma síðustu Icesave- samninganefndina. Hann hefur stýrt vinnu lögmannsstofunnar fyrir íslenska ríkið.
Fréttatilkynning MP banka kom í kjölfar þess að DV hafði birt frétt með fyrirsögninni „Sigurður og Benedikt skipa nýjan haftahóp“. Í þeirri frétt sagði að Sigurður Hannesson, sem er einn nánasti vinur og ráðgjafi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, og Benedikt Gíslason, sem er þegar í framkvæmdastjórn um losun hafta, yrðu á meðal sérfræðinga sem myndu skipa nýjan hóp sem myndi fá það hlutverk að hrinda í framkvæmd tillögum ráðgjafa stjórnvalda um losun fjármagnshafta. Á meðal þeirra tillagna sem tilgreindar voru í frétt DV var 35 prósent útgönguskattur á allar greiðslur til erlendra kröfuhafa.
Nýr sérstakur haftahópur skipaður
Í næsta tölublaði af DV, sem kom út 13. janúar, sagði að Sigurður og Benedikt yrðu hluti „af sérstökum hópi stjórnvalda sem hefur yfirumsjón með að hrinda í framkvæmd tillögum um losun hafta næstu mánuði“. Samkvæmt blaðinu átti hópurinn að hafa umboð til að eiga samráðsfundi með fulltrúum slitabúanna um mögulegar leiðir við uppgjör bankanna. Þeir sem skipaðir höfðu verið í framkvæmdastjórn um afnám hafta, utan Benedikts, áttu „áfram að starfa að afmörkuðum verkefnum í tengslum við haftavinnu stjórnvalda“. Þeir eru Freyr Hermannsson, forstöðumaður fjárstýringar Seðlabankans, Eiríkur Svavarsson lögmaður og fjármálaráðgjafinn Glenn Kim, sem átti að leiða hópinn.
Ráðuneyti Bjarna Benediktssonar segir að enginn nýr haftahópur hafi verið skipaður þótt til skoðunar sé að stækka hann.
Fréttin vakti undrun margra, enda var framkvæmdastjórnin einungis skipuð í júlí 2014 og var fyrst að láta almennilega til sín taka í desember síðastliðnum. Samhliða voru ráðnir erlendir ráðgjafar til að hjálpa til við að stíga skref í átt að losun hafta. Á meðal þeirra sem voru ráðnir lögfræðistofan Cleary Gottlieb Steen & Hamilton. Sá sem kemur fram fyrir hennar hönd í þessum málum er Lee Buchheit, fyrrum samningamaður Íslands í Icesave-deilunni.
Þrátt fyrir allar þessar fullyrðingar um skipan nýs hóps sem hefur það stóra hlutverk að vinna að losun fjármagnshafta var ekkert að finna um málið á vef stjórnarráðs Íslands. Raunar fékkst enginn ráðamaður til að staðfesta skipan hópsins. Eina opinbera tilkynningin sem tengdist skipan hópsins var frá MP banka, þar sem tilkynnt var að Sigurður Hannesson myndi fá leyfi til að sinna haftaverkefnum. Það vakti líka athygli að þegar fyrsta frétt um málið birtist í DV þann 9. janúar var Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, staddur erlendis í fríi. Bjarni leiðir stýrihóp um losun hafta og þeir hópar sem starfa að því verkefni heyra undir hans ráðuneyti.
Enginn hópur verið skipaður
Í kjölfar þessarra frétta sendi Kjarninn fyrirspurn á upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar. Sú fyrirspurn var send 12. janúar. Þar var spurt hver hafi skipað umræddan hóp, hvert hlutverk hans ætti að vera og hvort nýi hópurinn myndi hafa áhrif á hlutverk framkvæmdastjórnar um losun hafta og starf þeirra ráðgjafa sem ráðnir voru í júlí síðastliðnum?
Svar barst loks í morgun frá upplýsingafulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þar er þeirri fyrirspurn ekki svarað sérstaklega en sagt að „til skoðunar sé að stækka framkvæmdahópinn. Komi til þess verður það tilkynnt formlega þegar frá því hefur verið gengið“.
Því virðist enginn nýr haftahópur hafa verið skipaður og enginn endanleg ákvörðun hafa verið tekin um það innan stjórnsýslunnar. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur samt ekki séð ástæðu til þess að mótmæla fréttum DV um málið þar sem fullyrt er að slíkur hópur hafi verið skipaður og starfssvið hans afmarkað. Og Sigurður Hannesson virðist vera kominn í leyfi frá störfum sínum hjá MP banka til að sinna störfum sem fjármála- og efnahagsráðuneytið vill ekki staðfesta að séu til.