Alls var 265 kaupsamningum þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku. Þar af voru 202 samningar um eignir í fjölbýli, 52 samningar um sérbýli og 11 samningar um annars konar eignir en íbúðarhúsnæði. Heildarveltan var 9.666 milljónir króna og meðalupphæð á samning var 36,5 milljónir króna.
Þjóðskrá Íslands birti í dag, venju samkvæmt, vikulegar upplýsingar um veltu og fjölda kaupsamninga á fasteignamarkaði. Á um tíu vikna tímabili var engum samningum þinglýst vegna verkfalls lögfræðinga hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Síðustu vikur hefur verið unnið að því að þinglýsa pappírum sem hrönnuðust upp á tímabilinu. Það skýrir að stærstum hluta mikinn fjölda samninga og mikla veltu á fasteignamarkaðinu á höfuðborgarsvæðinu, eins og eftirfarandi gröf sýna.