Í kvöldfréttum RÚV í gær kom Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, fram og talaði um frumvörp sín um húsnæðismál. Frumvörpin eru fjögur, tvö voru samþykkt út úr ríkisstjórn í gær og vonir standa til þess hjá ráðherranum að hin tvö verði samþykkt í dag. Það má segja að þessara frumvarpa hafi verið beðið með eftirvæntingu, enda fyrir löngu búið að boða komu þeirra og almennt boða frekari aðgerðir í húsnæðismálum. Meðal annars hefur verið beðið eftir útspili ríkisstjórnarinnar þegar kemur að hinum víðtæku kjaradeilum.
Eitt af því sem mikið hefur verið rætt undanfarin ár eru erfiðleikar fólks sem ekki á fasteign en vill gjarnan kaupa, þar sem leiguverð hefur hækkað gríðarlega undanfarin ár og fasteignaverð þýtur einnig upp. Þetta er ekki síst ungt fólk, og það er sífellt erfiðara fyrir þennan hóp fólks að eignast þá fjárhæð sem til þarf til að festa kaup á húsnæði.
Eftir tæplega tveggja ára setu í ráðuneytinu gat húsnæðismálaráðherra þó ekki svarað því almennilega hvað ætti að gera fyrir þennan hóp fólks, þótt hún væri algjörlega á þeirri skoðun að eitthvað þyrfti að aðhafast. Svör Eyglóar í gær boða ekki gott fyrir þá sem hafa beðið hennar aðgerða með eftirvæntingu, hvort sem um ræðir einstaklinga í vanda eða heilu samtökin á vinnumarkaði sem hafa beðið útspils ríkisstjórnarinnar inn í kjaradeilurnar. En sjáum hvað gerist svo í dag...
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.