Sigurður Hannesson, einn nánasti vinur og ráðgjafi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, verður skipaður í nýjan sérfræðingahóp sem á að hrinda í framkvæmd áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta. Auk Sigurðar verður Benedikt Gíslason, sem hefur unnið að haftalosunarmálum fyrir Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsmálaráðherra frá því í nóvember 2013, í hópnum. Einn innlendur sérfræðingur til verður skipaður í hópinn. Frá þessu er greint í DV í dag.
Sigurður er framkvæmdastjóri eignarstýringar MP banka og mun taka sér leyfi frá þeim störfum á meðan að hann situr í hópnum. Hann nýtur mikils trausts hjá Sigmundi Davíð og var meðal annars formaður sérfræðingahóps stjórnvalda um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána. Sigurður kynnti niðurstöðu vinnu þess hóps í Hörpu í lok nóvember 2013 undir yfirskriftinni „Sáttmáli kynslóðanna". Á grunni þeirrar vinnu var ráðist í niðurfærslu á völdum verðtryggðum húsnæðislánum um allt að 80 milljarða króna.
Enn einn haftahópurinn
Hópurinn sem Sigurður og Benedikt setjast í er fjarri því að vera sá eini sem er starfandi við losun fjármagnshafta.Í nóvember 2013 var skipaður ráðgjafahópur um afnám hafta. Á meðal þeirra sem sátu í þeim hópi var Benedikt Gíslason.
Þá er líka til framkvæmdastjórn um afnám hafta sem leidd er af Glenn Kim. Í henni situr meðal annars áðurnefndur Benedikt Gíslason. Aðrir í henni eru Freyr Hermannsson og Eiríkur Svavarsson. Þessi framkvæmdastjórn var skipuð í júlí síðastliðnum. Samhliða voru ráðnir erlendir ráðgjafar til að hjálpa til við að stíga skref í átt að losun hafta. Á meðal þeirra sem voru ráðnir lögfræðistofan Cleary Gottlieb Steen & Hamilton. Sá sem kemur fram fyrir hennar hönd í þessum málum er Lee Buchheit, fyrrum samningamaður Íslands í Icesave-deilunni.
Hjá Cleary Gottlieb Steen & Hamilton starfar lögmaðurinn Lee Buchheit, sem leiddi á sínum tíma síðustu Icesave- samninganefndina. Hann hefur stýrt vinnu lögmannsstofunnar fyrir íslenska ríkið.
Tvær áætlanir sem tengjast losun fjármagnshafta voru kynntar fyrir samráðsnefnd stjórnmálaflokkanna um afnám hafta þann 4. desember 2014. Önnur áætlunin snýst um að knýja eigendur aflandskróna til að skipta eignum sínum yfir í skuldabréf til meira en 30 ára og hin snýst um flatan útgönguskatt á allar eignir sem vilja yfirgefa íslenska hagkerfið. Slíkur skattur myndi leggjast jafnt á innlendar sem erlendar eignir. Kim og Buchheit sáu um þessa kynningu.
Útgönguskattur á alla
Önnur kallast Project Slack og snýst um að láta eigendur aflandskróna, sem í dag eru um 300 milljarðar króna, skipta krónueignum sínum yfir í skuldabréf í erlendum myntum til meira en 30 ára á afslætti.Morgunblaðið hefur sagt frá tilurð þessarrar áætlunar áður.
Hitt sem var kynnt fyrir nefndinni var hugmynd um flatan útgönguskatt á allar eignir sem vildu fara út fyrir höft. Það þýðir að skatturinn myndi leggjast á bæði innlendar og erlendar eignir þrotabúa Glitnis, Kaupþings og Landsbankans.
Þeir Kim og Buchheit ræddu hins vegar ekkert um hversu hár útgönguskatturinn ætti að vera á fundinum. Morgunblaðið hefur sagt að hann eigi að vera 35 prósent. Á fundinum kom hins vegar skýrt fram að markmið tillagnanna væri ekki að afla tekna fyrir íslenska ríkið, heldur að afnema fjármagnshöft. Það þýði samt ekki að ríkið geti ekki hagnast mjög á aðgerðunum, enda stærð þrotabúa föllnu bankanna um tvö þúsund milljarðar króna. Mörg hundruð milljarðar króna gætu því fallið ríkinu í skaut gangi áætlanirnar eftir.