Fjármálaráðuneytið segist vonast til þess að lokið verði við kostnaðarmat á frumvarpi Eyglóar Harðardóttur um húsnæðisbætur í lok þessarar viku. Hitt frumvarp hennar sem beðið hefur verið, um stofnframlög til leigufélaga, verður hins vegar ekki tilbúið strax. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið. Miðað við starfsáætlun Alþingis verður að teljast afskaplega ólíklegt að málin tvö verði kláruð án þess til þing verði lengt.
„Ráðuneytið er að fara yfir ýmsar spurningar og álitamál sem hafa vaknað í tengslum við þessi áform og hefur verið að afla upplýsinga og talnaefnis sem hefur vantað fyrir áhrifamatið. Gert er ráð fyrir að fara þurfi yfir hluta af þeim álitaefnum með félags- og húsnæðismálaráðuneytinu í vikunni,“ segir í svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans. „Vonast er til að hægt verði að ganga frá niðurstöðum og ljúka við umsögn um frumvarp um húsnæðisbætur í þessari viku en meiri vinna er eftir í greiningu á frumvarpi um stofnframlög til leigufélaga.“
Lengi beðið eftir frumvörpunum
Frumvörpin tvö sem um ræðir áttu upphaflega að koma fram á haustþingi. Þegar ljóst varð að svo yrði ekki átti frumvarp um húsnæðisbætur að koma fram ekki síðar en 27. febrúar og frumvarp til laga um húsnæðismál, um stofnframlög til leigufélaga, eigi síðar en 26. mars, sem var síðasti dagur til að leggja fram mál á Alþingi. Tvö önnur frumvörp Eyglóar um húsnæðismál, frumvarp um húsnæðissamvinnufélög og um breytingar á húsaleigulögum, áttu einnig að vera komin fram fyrir þennan frest en það náðist ekki. Þau frumvörp eru komin inn í þingið með afbrigðum og umræða um húsaleigulög hófst á Alþingi í dag.
Eftir daginn í dag eru aðeins ellefu fundadagar eftir á Alþingi samkvæmt starfsáætlun, auk eldhúsdags. Fundir eru í þinginu á morgun og á fimmtudag en að þeim loknum verður ekki aftur þingfundur fyrr en mánudaginn 11. maí, þar sem næsta vika er nefndavika í þinginu. Þá verða níu þingfundadagar eftir.
Frumvarp um stofnframlög til leigufélaga verður því ekki tilbúið til að koma inn í þingið fyrr en í fyrsta lagi 11. maí. Ef hægt verður að ganga frá frumvarpi um húsnæðisbætur í lok þessarar viku á enn jafnframt eftir að koma því inn í þingið og ræða þarf bæði frumvörpin í þremur umræðum.
Frumvörpin hafa einnig verið nefnd sem einhvers konar innlegg stjórnvalda inn í kjaradeilurnar. Eygló Harðardóttir hefur sagt að Alþingi þurfi einfaldlega að starfa eins lengi og þarf til þess að klára þessi mál og ef einhvern tímann væri tilefni til að halda sumarþing væri það nú. „Allur vinnumarkaðurinn er undir og við verðum að afgreiða þessi mál áður en Alþingi fer í frí,“ sagði hún við Fréttablaðið 27. mars síðastliðinn. Um miðjan apríl sagði hún hins vegar í viðtali við Viðskiptablaðið að frumvörpin verði lögð fram á næsta haustþingi ef það tekst ekki á þessu þingi.