Hávær orðrómur gengur um að Apple sé að vinna að því að búa til bíl. Bryan Chaffin, annar stofnenda vefsins The Mac Observers, sem þykir mjög áreiðanlegur þegar kemur að fréttum af Apple, segist fullviss um að Apple sé á fullri ferð inn í bílaiðnaðinn.
Skrif Chaffin koma í kjölfarið af frétt Business Insider á mánudag um að Apple væri að vinna að verkefnum sem gætu veitt Tesla, sem er leiðandi í framleiðslu og þróun rafbíla í heiminum, samkeppni. Um 50 manns fyrrum starfsmenn Tesla hafa ráðið sig til Apple undanfarin misseri. Hluti þess hóps eru verkfræðingar sem gengdu lykilstöðum hjá Tesla.
Hafa áður viðrað hugmyndir um iCar
Chaffin segir að hann hafi heimildir fyrir því að Apple hafi verið að leita að, og í sumum tilfellum ráðið, fólki hjá Tesla sem byggi yfir sérhæfingu sem hentaði best við bílasmíði. Hann segist líka hafa komist að því að margir stjórnendur fyrirtækja með aðstetur í Kisildalnum gangi út frá því að Apple sé að vinna að þróun bíls.
Apple hefur ekki tjáð sig um orðróminn. Ef hann er réttur þá yrði það ekki í fyrsta sinn sem fyrirtækið hefði hugsað um að búa til bíl. Í fyrra sagði einn stjórnarmanna Apple að Steve Jobs hafi langað til að búa til iCar.
Tekjur Apple á síðasta ársfjórðungi 2014, slógu öll met. Fyrirtækið rakaði saman rúmum átján milljörðum bandaríkjadölum í hagnað á tímabilinu, af tæplega 75 milljarða dala tekjum Apple á síðasta ári. Hagnaðurinn var sá mesti sem nokkurt fyrirtæki hefur skilað í sögunni. Eins og kunnugt er er sala í jólamánuðinum inn í uppgjöri fyrir fjórða ársfjórðung, en vörur Apple seldust ævintýralega í desember.