Bandarísk stjórnvöld hafa viðrað þá skoðun við íslensk yfirvöld að í ljósi breytts öryggisumhverfis gæti verið ástæða fyrir Bandaríkjamenn að auka viðveru bandarísks liðsafla hér á landi. Engar viðræður hafa þó átt sér stað milli ríkjanna tveggja. Þetta kom fram í fréttum RÚV, en utanríkisráðuneytið svaraði fyrirspurn RÚV um málið.
Bob Work skoðaði flugskýli
Er meðal annars vitnað til fréttar sem Björn Bjarnason, fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, birti á vef Varðbergs, þar sem vísað er í viðtal við Bob Work, varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, en viðtalið við Work var á vefnum Defense Work í þessari viku. Í viðtalinu kemur fram að Íslendingar hafi áhyggjur af framferði Rússa, sem fljúgi nálægt íslenskri lofthelgi og að Ísland hafi áhuga á frekari og aukinni samvinnu í varnarmálum við Bandaríkjamenn.
Work skoðaði á ferð sinni flugskýli sem notuð voru fyrir P-3 Orion flugvélar bandaríska hersins á tímum kalda stríðsins í Keflavík.
Bandaríski herinn sá um öryggis-og varnarmál á Íslandi áratugum saman í umboði NATO. Hann hvarf frá landinu árið 2006, með litlum sem engum fyrirvara, eftir 55 ára veru, en herstöðin og aðstaða fyrir herinn var á Miðnesheiði við Keflavíkurflugvöll.
Auglýsing