Eins og kunnugt er tilkynnti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, öllum að óvörum, að von sé á stórum skrefum í átt að afnámi hafta á yfirstandandi vorþingi og svokallaður stöðugleikaskattur muni skila ríkissjóði hundruðum milljarða króna.
Með ummælum sínum má segja að Sigmundur Davíð hafi stolið þrumunni af Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra, sem hefur haft vinnu við afnám fjármagnshafta á sínu forræði. Þar að auki hefur mikil leynd hvílt yfir framvindu málsins og því kom tilkynning forsætisráðherra mörgum í opna skjöldu. Varla er hægt að túlka orð forsætisráðherra öðruvísi en að hann sé með þeim að reyna að taka málið af fjármálaráðherra, sem verður að segjast að er heldur vandræðalegt fyrir þann síðarnefnda.
Í sjónvarpsviðtölum í gær fullyrti Sigmundur Davíð að engin ágreiningur ríki milli sín og formanns Sjálfstæðisflokksins um áætlun um afnám hafta.
Gott og vel. En ætli Sigmundur Davíð hafi tilkynnt Bjarna um hvað væri í vændum á flokksþingi Framsóknarflokksins? Síðan forsætisráðherra tilkynnti um afnám hafta, hefur ekkert hvorki heyrst hósti né stuna úr herbúðum Bjarna né frá honum sjálfum.
Pælingin Kjarnans: Ætli Bjarni Ben sé sáttur við útspil forsætisráðherra?