Viðtekin viðhorf um að skattur á fjármagn sé alltaf óhagkvæmur standast ekki ef einstaklingar eru misframleiðnir á vinnumarkaði, hafa mismikla getu til fjárfestinga og að þeir fjárfesta. Þetta eru niðurstöður fræðigreinar sem Arnaldur Sölvi Kristjánsson, hagfræðingur hjá ASÍ hefur skrifað um hagkvæma skattheimtu.
Arnaldur er fyrsti viðmælandinn í þáttaröðinni Ekon, þar sem hagfræðingurinn Emil Dagsson fær til sín sérfræðinga úr ýmsum áttum til að fjalla um hagfræðileg málefni ásamt málefnum tengdum íslenskum efnahag. Þáttinn má sjá í spilaranum hér að neðan, auk þess sem hlusta má á hann í Hlaðvarpi Kjarnans.
Samkvæmt honum sýndu niðurstöður eldri fræðigreina að fjármagnstekjuskattur væri alltaf óhagkvæm leið til að draga ójöfnuði. Þessar niðurstöður höfðu svo áhrif á almenn viðhorf til slíkrar skattlagningar, en skattur á fjármagn er nú töluvert lægri en tekjuskattur víða um heim.
Í eldri greinum var búist við því að arðsemi af fjárfestingum væri gefin, svo einstaklingar gátu vænst þess að græða jafnmikið og aðrir af fjárfestingum sínum. Arnaldur gerði aftur á móti ráð fyrir því í grein sinni að fjárfestingar væru misarðbærar eftir einstaklingum og að það krefðist vinnu og fjármálalæsi til að halda uppi góðri ávöxtun á sínum fjármunum. Ef sú forsenda er tekin með í útreikningum fæst að fjármagnstekjuskattur er ekki alltaf óhagkvæmur, þvert á fyrri niðurstöður.
Sjálfur hefur Arnaldur fengist mikið við tekjuskiptingu í sínum rannsóknum og þá einkum frá sjónarhóli skattkerfisins. Hann er með doktorsgráðu í hagfræði frá Oslóarháskóla en starfar nú sem hagfræðingur hjá ASÍ.
Þættirnir Ekon eru styrktir af Háskóla Íslands, sem styður vísindamenn til virkrar þátttöku í samfélaginu í krafti rannsókna þess og sérþekkingar.