Píratar mælast nú langstærsti stjórnmálaflokkur landsins. Flokkurinn mælist með ríflega 30 prósenta fylgi, á meðan nær allir aðrir flokkar á þingi tapa fylgi, og hefur sexfaldað fylgi sitt frá því að talið var upp úr kössunum í síðustu Alþingiskosningum. Fylgisaukning Pírata er með miklum ólíkindum, eða hvað?
Fylgistap ríkisstjórnarinnar er auðskilið enda lengist tossalisti hennar nánast dag frá degi. Hvert stórmálið á fætur öðru bíður skipsbrot, og nægir þar að nefna náttúrupassann, nýtt frumvarp um fiskveiðistjórnunarkerfið, húsnæðismálafrumvörpin og Fiskistofu-fíaskóið að ógleymdri leiðréttingunni víðfrægu sem gufaði upp eins og prumpulykt.
Þó Katrín Jakobsdóttir sé vinsælasti stjórnmálamaður landsins, virðast kjósendur ekki treysta flokknum hennar til góðra verka, Samfylkingin er í ruglinu, sambandslaus, með laskaðan formann eftir misheppnaða hallarbyltingu og tilþrifaleysi Bjartrar framtíðar er algjört, enda fylgi flokksins í frjálsu falli.
Kjósendur virðast endanlega hafa gefist upp á fjórflokknum (og þar er Björt framtíð talin með), í bili að minnsta kosti, enda hefur samfélagið tekið miklum breytingum frá þeim tíma þegar flokkakerfið var á sínu blómaskeiði.
Kjósendur vilja eitthvað annað núna. Eru Píratar eitthvað annað? Þó langt sé í næstu kosningar eru nú þegar uppi sterkar vísbendingar um að fjórflokkurinn sé kominn á síðasta söludag.