Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu er í 23. sæti á lista FIFA yfir sterkustu knattspyrnuþjóðir heims, en nýjasti listinn var gefinn út í gær. Ísland hefur aldrei verið ofar á listanum, en liðið stökk upp um fjórtán sæti eftir frækinn sigur á Tékkum á dögunum.
Ísland er efst Norðurlandanna á listanum, ekki að það skipti öllu máli, en Danir koma fast á hæla íslenska karlalandsliðsins í 24. sæti.
Fyrir utan það að nú sé orðið bara allt í einu gaman að kíkja á stöðu Íslands á styrkleikalistanum, þá skiptir staða Íslands á listanum máli, því nú er ljóst að íslenska karlalandsliðið verður í öðrum styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla fyrir undankeppni HM 2018. Á meðal sterkra þjóða sem eru neðar á styrkleikalistanum má nefna Úkraínu, Mexíkó, Kamerún, Serbíu og Rússland.
Næsti leikur liðsins er á móti Hollendingum á útivelli þann 3. september næstkomandi, í undankeppni Evrópukeppninnar sem fram fer í Frakklandi næsta sumar. Íslendingar tróna á toppi A-riðils og geta með hagstæðum úrslitum endanlega tryggt sér farseðilinn á lokamótið, og það í fyrsta skipti í íslensku knattspyrnusögunni, og mögulega skilið Hollendinga eftir.
Ljóst er að margir eru farnir að hlakka til leiksins við Hollendinga, og sumir meira en aðrir. Ætli nokkrir stjórnmálamenn á Íslandi muni ekki líta á það sem ákveðinn fullnaðarsigur eftir Icesave, að tryggja sér þátttökuréttinn á EM á heimavelli Hollendinga og skilja þá um leið eftir með sárt ennið? Nei, ég segi bara svona. Pæling.
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.