Samkvæmt útreikningum greiningardeildar Arion banka hefur framleiðni á hvern starfsmann í flestum atvinnugreinum ferðaþjónustunnar hér á landi dregist saman á síðustu árum, og það á sama tíma og sprenging hefur orðið í komum erlendra ferðamanna til Íslands. Svo mikil er sprengingin að mörgum þykir meira að segja nóg um.
Þrátt fyrir að fjölgun ferðamanna umfram fjölgun starfa bendi til aukinnar framleiðni, er raunin oftast hið gagnstæða, að mati greiningardeildarinnar. Sérfræðingar Arion banka eru helst á því að of mikil samkeppni í ferðaþjónustunni standi framleiðni greinarinnar fyrir þrifum og aðilar í ferðaþjónustunni séu ekki að nýta sér stærðarhagræði með fjölgun ferðamanna.
Með öðrum orðum þá eru of margir að berjast um bitana. Það líður varla sú vika þar sem ekki heyrast fréttir af áformum um frekari hóteluppbyggingu, og þá fjölgar ferðaþjónustufyrirtækjunum nánast dag frá degi. Allir vilja fá sinn skerf af túristakökunni.
Margir hafa líkt ástandinu sem ríkir um þessar mundir í ferðaþjónustunni við vilta vestrið, þar sem lítið fór fyrir lögum og reglum. Hvort sú lýsing sé raunsæ skal ósagt látið, hins vegar er í gangi mikið gullgrafaraæði í greininni sem virðist vera að bíta okkur í rassinn.