Sú staða sem er komin upp í kjaradeilum verður alvarlegri og alvarlegri með hverjum deginum. Stjórnendur á Landsspítalanum greina frá því að verkföll geti raunverulega leitt til dauða sjúklinga, skortur er á nauðsynjavöru, þjónustuskerðing innan ferðaþjónustu gerir það að verkum að tekjur vegna ferðamanna skila sér í minna mæli en þær ættu að gera, það er ekki hægt að gifta sig borgaralega, skilja, þinglýsa íbúðakaupsamningum eða fá tilskilin leyfi fyrir stórum partýum og útflutningsverðmæti upp á milljarða króna eru í stórhættu. Og verkföllin eru ekki enn byrjuð af fullum þunga. Eftir nokkrar vikur eru allar líkur á að tugþúsundir verði í verkfalli og að íslenskt velferðarkerfi og efnahagslíf lamist. Þetta er raunveruleikinn.
Stjórnvöld hafa ekki viljað stíga inn í þessar deilur af fullum krafti. Miðað við afleiðingarnar sem blasa við, sem gæti tekið okkur langan tíma að vinda ofan af, er ljóst að sú afstaða gengur ekki degi lengur. Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri grænna, sagði í Vikulokunum á Rás 2 í gær að stjórnarflokkarnir þyrftu að játa vanmátt sinn gagnvart ástandinu og bjóða stjórnarandstöðunni með í að reyna að höggva á hnútinn. Ef allir stjórnmálaflokkar á Alþingi myndu vinna saman að lausn sem lögð yrði fram til að leysa málið þá væri það sannarlega rós í hnappagat þeirra allra.
En það skiptir máli að hafa hraðar hendur og til þess að dæmið gangi upp þarf að ýta öllum öðrum deilumálum til hliðar á meðan að þetta risamál er tæklað af krafti. Það þýðir að fresta þarf umræðum um losun hafta, makrílkvóta, hin pikkföstu húsnæðisfrumvörp og allt hitt sem stjórnmálamenn greinir á um í dag á meðan að stóra lausnin á kjaradeilunum er fundin.
Þá þarf að skilja herklæðin eftir fyrir utan Alþingi tímabundið. Stóra spurningin er, geta þeir stjórnmálamenn sem í dag skipa þingsætin, hvort sem er í stjórn eða stjórnarandstöðu, gert það?