Málaferlum fyrrverandi framkvæmdastjóra tryggingarisans AIG, Maurice Greenberg sem oftast er nefndur Hank, gegn Seðlabanka Bandaríkjanna lýkur brátt, en ný gögn voru lögð fram í málinu skömmu fyrir miðnætti síðastliðinn fimmtudag, að sögn New York Times. Hank heldur því fram að bandaríska ríkið hafi gengið of langt í því að lækka hlutaféð niður, þegar seðlabankinn lagði fyrirtækinu til 182 milljarða Bandaríkjadala til þess að koma í veg fyrir gjaldþrot þess, en óttast var að allt fjármálakerfi Bandaríkjanna gæti farið með fyrirtækinu niður.
Samkvæmt frásögn New York Times kemur fram í hinum nýju gögnum að lögmenn og ráðgjafar hafi lagt til við Seðlabanka Bandaríkjanna að hann legði fyrirtækinu til fé, en að ítrustu hagsmunir bandaríska ríkisins yrðu varðir, meðal annars með því að taka yfir hlutafé félagsins að mestu. Ben Bernanke, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna sem stýrði aðgerðum þegar fjármálakreppan var dýpst haustið 2008, varð æfur þegar hann komst að því hversu stórtæk og áhættumikil veðmál AIG hafði tekið á skuldabréfamarkaði. Hann hefur sagt kröfur Greenberg og ákveðinna fyrrverandi hluthafa AIG hreina „frekju“ og „með ólíkindum“ sé að þeir skuli dirfast að fara í mál gegn ríkinu sem bjargaði fyrirtækinu.
Samkvæmt frásögn New York Times hafa það verið röksemdir lögmanna Seðlabanka Bandaríkjanna, það er að ef ekki hefði komið til peningaframlags skattgreiðenda til AIG þá hefði fyrirtækið orðið gjaldþrot, og líklega fleiri fyrirtæki líka, í ljósi umfangs vandamála hjá fyrirtækinu. Þá hafa lögmenn Seðlabanka Bandaríkjanna einnig bent á að AIG hafi hagnast um 23 milljarða Bandaríkjadala á fjárinnspýtingunni, meðal annars vegna hagstæðra vaxta.
Lögmenn Greenberg halda því fram, meðal annars með tilvitnunum í tölvupósta milli forvarsmanna AIG og seðlabankans, að ekki hafi verið þörf á svo mikilli lækkun á hlutafé AIG. Samskiptin sem vitnað er til sýni það. Þessu neita lögmenn Seðlabanka Bandaríkjanna, og segja þetta örvæntingarfulla tilraun til þessa forðast að takast málefnalega á við þá staðreynd að ef ekki hefði komið til peningaframlags frá skattgreiðendum, upp á 182 milljarða Bandaríkjadala, þá hefði AIG orðið gjalþrota.
Dómur verður kveðinn upp í málinu í dómstóli í New York, innan tíðar, að því er segir í New York Times.