Halldóra Mogensen þingflokksformaður Pírata telur að lítil rök séu fyrir ákvörðunum stjórnarflokkanna um ráðherraefni og segir hún sérstaklega furðulegt að fylgjast með því að ráðherrarnir sjálfir hefðu sjálfir komið af fjöllum þegar þeir voru skipaðir í embætti. Þetta kom fram í máli hennar í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Hún spurði Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins hvort Jón Gunnarsson hefði verið besta dómsmálaráðherraefni Sjálfstæðisflokksins. Bjarni sagði að hann væri „mjög gott ráðherraefni“ og hefði hann fært fyrir því rök að Jón hefði mjög sterkt lýðræðislegt umboð til embættisins.
Halldóra sagði í fyrirspurn sinni að flokkarnir sem boðuðu stöðugleika í kosningabaráttunni hefðu látið það verða sitt fyrsta verk að setja af stað „mestu ráðherrahringekju Íslandssögunnar“. Aðeins flokksformennirnir hefðu fengið að halda stöðunum sínum en öðrum verið „ruslað til“ án nokkurra haldbærra útskýringa – hvorki gagnvart þjóðinni né ráðherrunum sjálfum.
„Þessar mannabreytingar lykta frekar af vantrausti í garð einstakra ráðherra en faglegu mati eða það er allavega ljóst að áhugi eða reynsla ráðherra af verkefnum ráðuneytanna skiptir litlu máli. Þetta þykir því skiljanlega undarlegt, forseti. Og allra undarlegust þykir skipun Jóns Gunnarssonar í embætti dómsmálaráðherra sem hreinlega enginn botnar í,“ sagði hún og vitnaði í svör Bjarna fyrir Morgunblaðið þegar hann tilkynnti um skipun Jóns.
Þar sagði hann: „Jón kemur úr stærsta kjördæmi landsins þar sem fylgi Sjálfstæðisflokksins er mest. Hann hefur verið þingmaður frá árinu 2007 og gegndi ráðherraembætti um skamma hríð. Hann er ritari flokksins sömuleiðis og hefur sterkt umboð innan flokksins og er ágætlega að þessu kominn.“
Halldóra telur þetta ekki merkileg meðmæli. „Hæstvirtum dómsmálaráðherra virðist einfaldlega hafa fengið embætti sitt af því að hann er svo gegnheill Sjálfstæðismaður. En í þingflokki hæstvirts fjármálaráðherra eru hins vegar 18 Sjálfstæðismenn. Ráðherra fékk níu vikur til að íhuga val sitt og því má ætla að ákvörðun hæstvirts fjármálaráðherra hafi verið úthugsuð.“
Hún spurði ráðherrann einfaldlega hvort Jón Gunnarsson væri besta dómsmálaráðherraefni Sjálfstæðisflokksins.
„Ég held að ég hafi valið góðan mann til að tilnefna“
Bjarni kom í pontu og sagðist langa að byrja á því að tala um stöðugleikann sem Halldóra kom inn á.
„Ríkisstjórninni er umhugað um stöðugleika í efnahagsmálum, stöðugleika í stjórnarfari og stöðugleika bara fyrir fólk og fyrirtæki. Það hefur ekkert með það að gera hvort við getum gert breytingar á Stjórnarráðinu. Höfum ekki áhyggjur af því þó að þar ríki ekki nákvæmlega sami stöðugleikinn, hvorki fyrir stjórnmálamenn né aðra sem sinna verkefnum í Stjórnarráðinu, vegna þess að þar skiptir miklu meira máli að stjórnkerfið styðji við áherslur ríkisstjórnarinnar og þarfir þjóðfélagsins.“
Benti Bjarni á að þau í þingflokki Sjálfstæðisflokksins væru víst 17 – en ekki 18. „Ég er spurður að því hvort Jón Gunnarsson sé besta dómsmálaráðherraefni Sjálfstæðismanna. Hann er að minnsta kosti að mínu áliti mjög gott ráðherraefni og ég hef fært fyrir því rök að hann hafi mjög sterkt lýðræðislegt umboð, bæði úr kosningum og eins innan flokksins sem ritari flokksins. Hann hefur reynslu sem snertir margra þá málaflokka sem er fengist við í dómsmálaráðuneytinu. Ég nefni sérstaklega allt sem snýr að almannavörnum og sú reynsla sem hann kemur með þar. En svo hefur hann líka lengi verið á þingi og hefur áður gegnt ráðherraembætti. Þannig að já, ég verð nú að segja það að ég held að ég hafi valið góðan mann til að tilnefna og þingflokkurinn hafi samþykkt gott ráðherraefni fyrir Sjálfstæðisflokkinn í dómsmálaráðuneytinu,“ sagði hann.
Á ráðuneytið „ekki einmitt skilið smástöðugleika“?
Halldóra baðst afsökunar ef hún hefði mistalið Sjálfstæðismenn – enda hefðu þessar tölur verið mikið á flakki nýverið og kannski erfiðara að fylgjast með.
„En ég spurði hvort Jón Gunnarsson væri besta dómsmálaráðherraefni Sjálfstæðisflokksins og það er kannski ekki furða að maður spyrji vegna þess að það fylgja voða lítil rök fyrir þessum ákvörðunum stjórnarflokkanna um ráðherraefni og var sérstaklega furðulegt að fylgjast með því að ráðherrarnir sjálfir komu af fjöllum þegar þeir voru skipaðir í embætti. En mér finnst áhugavert að biðja hæstvirtan ráðherra að útskýra hvernig honum tekst að bera fullt traust, heyrist mér, til hæstvirts dómsmálaráðherra en samt bara treysta honum til að gegna embættinu í 18 mánuði, sérstaklega í ljósi þess að dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa átt í stökustu vandræðum með að sitja út heilt kjörtímabil. Ég spyr því hvort þetta ráðuneyti eigi ekki einmitt skilið smástöðugleika. Hvers vegna bara 18 mánuðir?“ spurði hún.
Úr vöndu að ráða
Bjarni kom aftur í pontu og svaraði í annað sinn. „Það sprettur kannski upp af þeim vanda að við erum bara með svo marga hæfa einstaklinga í þingflokki Sjálfstæðisflokksins að við þurfum að skipta verkum milli fólks. Hér var það lagt til að Guðrún Hafsteinsdóttir, sem er nýr oddviti Sjálfstæðismanna á Suðurlandi, tæki við af Jóni á þessu kjörtímabili. Það var ekki flóknara en svo.
Jón hefði verið ágætlega að því kominn að vera lengur í ráðherraembætti en hér er lagt upp með, en svona er þetta nú. Það getur verið úr vöndu að ráða þegar verið er að skipa til sætis og fela fólki ólík verkefni. En ég held að það hafi bara tekist mjög vel til,“ sagði hann.