Framsóknarflokkurinn leggst alfarið gegn bónusgreiðslum til starfsmanna fjármálafyrirtækja, og vill þar að auki að Landsbankinn verði um ókomna framtíð í eigu íslenska ríkisins. Ályktanir þessa efnis voru samþykktar á flokksþingi Framsóknarmanna um helgina.
Þingmenn flokksins, þeir Karl Garðarsson og Frosti Sigurjónsson, eru mennirnir á bakvið ályktanirnar. Karl telur enga stemmningu fyrir bónusgreiðslum til bankastarfsmanna í samfélaginu í ljósi þess skaða sem þeir hafi valdið íslensku samfélagi, og Frosti er á því að ríkisbanki geti stuðlað að enn meiri samkeppni á íslenskum bankamarkaði, sem einkennist af nær fordæmalausri fákeppni.
Afstaða Framsóknarflokks til bónusgreiðslna er í beinni andstöðu við fyrirliggjandi frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, og svo verður að teljast nokkuð ólíklegt að hugmynd um ríkisbanka hugnist mörgum Sjálfstæðismanninum vel.
Pæling Kjarnans: Hefur nokkurn tímann verið meiri gjá á milli stjórnarflokkanna og nú, eftir flokksþing Framsóknarmanna með hliðsjón af áðurnefndum ályktunum og ræðu Sigmundar Davíðs á föstudaginn, sem þótti gera lítið úr formanni Sjálfstæðisflokksins?