Nýafstaðnar þingkosningar í Bandaríkjunum fóru ekki eins og skoðanakannanir í aðdraganda þeirra bentu til. Repúblikanar, sem reiknuðu með því að ná rúmum meirihluta í fulltrúadeild þingsins og jafnvel meirihluta í öldungadeildinni einnig, virðast ekki ætla að hafa nema nauman meirihluta í fulltrúadeildinni og sennilegast er að demókratar haldi meirihluta sínum í öldungadeildinni.
Í reynd er frammistaða Repúblikanaflokksins sú versta sem stjórnarandstöðuflokkur hefur náð í þingkosningum á miðju kjörtímabili forseta frá árinu 2002, er vinsældir George W. Bush í kjölfar hryðjuverkaárásanna í New York skiluðu flokki hans góðri niðurstöðu, og demókrötum síðri.
Niðurstaða kosninganna virðist nú ætla að leiða til uppgjörs innan Repúblikanaflokksins, uppgjörs við Donald Trump og þá braut sem hann hefur leitt flokkinn á. Mörgum þykir ljóst að áherslur hans séu ólíklegar til þess að koma flokknum til valda að nýju.
Murdoch-veldið lætur Trump heyra það
Fjölmiðlar í eigu ástralska auðkýfingsins Rupert Murdoch hafa í vikunni virst á einu máli um það hverju slæleg frammistaða Repúblikanaflokksins sé helst um að kenna: Donald Trump.
Murdoch-veldið er áhrifamikið á hægri kantinum í bandarísku fjölmiðlaflórunni, en Murdoch á sjónvarpsstöðina Fox, auk dagblaðanna New York Post og Wall Street Journal. Í forsetatíð Trumps þóttu miðlar í eigu Murdochs fremur hliðhollir forsetanum fyrrverandi í ritstjórnarskrifum, en nú er heldur betur annað uppi á teningnum.
Á forsíðu New York Post á fimmtudag var Trump teiknaður upp sem barnateiknimyndafíguran Humpty Dumpty (sem á íslensku hefur verið kallaður Eggert eggjastrákur) undir fyrirsögninni „Trumpty Dumpty“ og meðfylgjandi var texti sem gaf í skyn að hann hefði beðið mikinn ósigur. Spurt var hvort hægt yrði að tjasla Repúblikanaflokknum saman á ný.
Í ritstjórnarpistli frá Wall Street Journal var Trump svo kennt um ófarir flokksins, og bent á að mýmargir frambjóðendur sem hann studdi í forvali Repúblikanaflokksins náðu ekki kjöri í lykilríkjum baráttunnar. „Trump er stærsti lúserinn í Repúblikanaflokknum“ var fyrirsögn pistilsins, og í undirfyrirsögn sagði að nú hefði Trump „floppað“ í fernum kosningum í röð, 2018, 2020, í aukakosningunum í Georgíu árið 2021 og 2022.
Í greininni í Wall Street Journal var auk annars fjallað um stuðning Trump við sjónvarpslækninn Mehmet Oz, sem tapaði öldungadeildarslagnum í Pennsylvaníu-ríki gegn John Fetterman frambjóðanda Demókrataflokksins. Sú niðurstaða þótti sýna fram á að Oz hefði verið arfaslakur frambjóðandi, enda náði hann ekki að landa sigri þrátt fyrir að hafa þá forgjöf að mótframbjóðandi hans varð fyrir því að fá heilablóðfall fyrr á árinu, sem hann er enn að jafna sig á.
Í grein Wall Street Journal og víðar hefur svo verið bent á að þrátt fyrir að í ýmsum ríkjum hafi stuðningsyfirlýsing frá Trump dugað til þess að tryggja frambjóðendum sigur í prófkjörum innan Repúblikanaflokksins, hafi þeir frambjóðendur sem Trump veitti yfirlýstan stuðning ekki náð að höfða til óflokksbundinna kjósenda.
Eitt skýrasta dæmið um það var sennilega í ríkinu New Hampshire. Don Bolduc, sem Trump hafði stutt í embætti öldungardeildarþingmanns, tapaði þar sannfærandi gegn Maggie Hassan, sitjandi þingmanni demókrata. Á sama tíma náði repúblikaninn Chris Sununu endurkjöri sem ríkisstjóri í New Hampshire með miklum mun – og hann naut ekki stuðnings Trumps.
Í Georgíu-ríki virðist ríkisstjórinn Brian Kemp svo hafa notið góðs af því að fjarlægja sjálfan sig Trump og stefnu hans, en Kemp hefur verið gagnrýninn á forsetann fyrrverandi og síendurteknar ásakanir hans og fylgismanna hans um að rangt hafi verið haft við í forsetakosningunum árið 2020.
Kemp rúllaði upp ríkisstjórakjörinu í baráttu við demókratann Stacey Abrams en á sama tíma er nær öruggt að grípa þurfi til aukakosninga á milli Herschel Walker, sem Trump studdi til öldungadeildarsætisins í ríkinu, gegn sitjandi þingmanni Demókrataflokksins, Raphael Warnock.
Valdabaráttan hafi skaðað flokkinn
Flokksforysta Repúblikanaflokksins í Michigan-ríki, þar sem flokkurinn beið ósigra á nær öllum vígstöðvum, hefur þegar hafið uppgjör á kosningunum. Í minnisblaði frá framkvæmdastjóra flokksins í ríkinu sem sent var út á fimmtudag sagði að flokksforystan hefði þurft að takast á við valdatafl á milli stuðningsmanna Trumps og andstæðinga hans innan flokksins í aðdraganda kosninganna.
Þessi valdabarátta hefði skaðað frammistöðuna, ekki síst þar sem hún hafi haft áhrif á framlög til kosningabaráttunnar.
Ýmsir innan Repúblikanaflokksins hafa á undanförnum dögum gefið í skyn að úrslit kosninganna sýni að tími Trumps sé liðinn. Liz Cheney, þingkona flokksins frá Wyoming-ríki og ákafur gagnrýnandi Trumps, sem reyndar galt fyrir andstöðu sína við forsetann í prófkjöri flokksins í ríkinu í sumar, sagði að úrslit kosninganna væru sigur fyrir „venjulega liðið“ innan Repúblikanaflokksins.
Þrátt fyrir það hefur verið búist við því að Trump tilkynni að hann muni bjóða sig fram til forseta að nýju strax í komandi viku.