Miklir erfiðleikar blasa við Grænlendingum en aðeins tveim dögum fyrir kjördag var upplýst að staða grænlenska landssjóðsins er mun verri en áður var vitað.
Siumut er áfram stærsti flokkurinn á grænlenska landsþinginu eftir þingkosningarnar síðastliðinn föstudag. Siumut fékk 34,3 prósent atkvæða og ellefu þingmenn, tapaði tíu prósentustigum frá kosningunum á síðasta ári. Inuit Atqatigiit flokkurinn fékk 33,2 prósent atkvæða og sömuleiðis ellefu þingmenn.
Þessi niðurstaða þýðir að það kemur í hlut Kim Kielsen leiðtoga Siumut að reyna myndun nýrrar stjórnar. Sextán þingsæti þarf til að mynda meirihluta en þingmenn eru 31. Samstarf tveggja stærstu flokkanna er talið fremur ólíklegt og af þeim sökum eru smáflokkarnir þrír, sem samtals fengu 9 þingmenn, í lykilstöðu. Kim Kielsen leiðtogi Siumut sagði, þegar úrslitin lágu fyrir að ný landsstjórn yrði ekki mynduð í einum grænum, miklu skipti að flokkar á grænlenska þinginu næðu samkomulagi sem tryggði gæti framtíð lands og þjóðar, eins og hann komst að orði og það er ærið viðfangsefni.
Kim Kielsen, leiðtogi Siumut, á kjörstað í nýafstöðnum þingkosningum á Grænlandi.
Spilling og hneykslismál felldu stjórnina
Aleqa Hammond fyrrverandi formaður Siumut og leiðtogi grænlensku landsstjórnarinnar boðaði til kosninganna eftir að stjórn hennar missti meirihuta sinn á þinginu í byrjun október. Það gerðist í kjölfar þess að upp komst að Aleqa Hammond hafði notað opinbert fé í þágu fjölskyldu sinnar, meðal annars til ferðalaga. Margir Grænlendingar höfðu bundið miklr vonir við „drottningu grænlenskra stjórnmála“ eins og hún var gjarna kölluð. En skjótt skipast veður í lofti og „drottningin“ valt af stallinum án þess að hafa komið miklu til leiðar á sinni stuttu valdatíð.
Fyrir kosningarnar í mars í fyrra snérist kosningabaráttan að miklu leyti um hvort leyfa ætti mikla vinnslu náttúruauðlinda, málma, olíu, gulls og eðalsteina. Hagvöxtur hefur verið neikvæður undanfarin ár, atvinnuleysi er mikið (9 – 10 prósent) og ferðamönnum hefur fækkað talsvert. Hátt fiskverð hefur bjargað sjávarútveginum en þar er framtíðin óviss. Miklar áskoranir blöstu því við ríkisstjórn Alequ Hammond en á þeim skamma tíma sem stjórn hennar sat breyttist fátt.
Aleqa Hammond, þáverandi leiðtogi grænlensku landsstjórnarinnar, í sjónvarpsviðtali hjá Sveini H. Guðmarssyni, fréttamanni á RÚV, í maímánuði síðastliðnum.
Kolsvört skýrsla tveimur dögum fyrir kosningar
Tveimur dögum fyrir kosningar tók kosningabaráttan nýja stefnu þegar grænlenska efnahags-og innanríkisráðuneytið birti skýrslu um stöðu landssjóðsins en stjórnarandstaðan hafði margsinnis krafist þess að skýrslan yrði birt, áður en gengið yrði til kosninga. Óhætt er að segja að segja að þar blasi við dekkri mynd en flestum hafði til hugar komið, kolsvört er víst óhætt að segja.
Í fjárlögum þessa árs var gert ráð fyrir 20,8 milljóna króna afgangi (432 milljörðum íslenskra króna) en samkvæmt skýrslunni verður hinsvegar halli uppá 282 milljónir króna (tæplega 5.9 milljarðar íslenskra króna). Grænlensku fjárlögin hljóða uppá 6.6. milljarða króna (137 milljarða íslenskra króna). Ekki er ofmælt að Grænlendingum hafi brugðið illilega við þessar fréttir en Vittus Qujaukitsoq fjármálaráðherra í stjórn Alequ Hammond harðneitaði að stjórnin hefði reynt að leyna þessum upplýsingum vegna kosninganna.
Minni skatttekjur og lægri tekjur af makrílveiði er sagðar skýra þennan mikla mun og ennfremur hafði ríkisstjórnin efnt til mikilla útgjalda til að efla atvinnu í landinu.
Hvað er til ráða?
Danskir fjármálasérfræðingar eru á einu máli um að erfiðleikarnir sem Grænlendingar standi frammi fyrir séu miklir. Ef ekki verði brugðist við ástandinu með markvissum aðgerðum blasi algjört hrun við íbúum Grænlands. Fiskveiðar eru mikilvægasta tekjulind landsins en ekki er hægt að gera ráð fyrir auknum tekjum af veiðum og vinnslu á næstu árum, að minnsta kosti ekki sem neinu nemi. Þótt grænlenska ríkið geti ef til vill fengið miklar tekjur af náma-og olíuvinnslu þegar fram líða stundir, er þó langt í að þær tekjur fari að streyma í ríkiskassann.
Danskir fjölmiðlar hafa fjallað ítarlega um ástandið á Grænlandi og sérfræðingar sem þeir hafa rætt við segja ástæðulaust fyrir Grænlendinga að leggja árar í bát þótt á móti blási. Grænlendingar fái árlega allmikla peninga frá Danmörku og ESB, ekki sé hægt að búast við hærri fjárframlögum af því tagi á næstu árum.
Sérfræðingarnir benda á að margir erlendir aðilar séu vafalítið tilbúnir að leggja fé í atvinnuuppbyggingu og benda á að mikil þörf sé á nýju íbúðarhúsnæði, líka vanti hafnir, brýr og vegi. Brýnt sé að stækka flugvöllinn í Ilulissat, það sé ein af forsendum þess að efla ferðamannastrauminn sem sé mikilvæg tekjulind og þar leynist miklir möguleikar, sem hafi ekki verið nýttir sem skyldi.
Margir tilbúnir að aðstoða og þá rís sólin á ný
Í Danmörku eru margir öflugir sjóðir og talsmenn nokkurra þeirra hafa strax tekið vel í hugmyndir um að leggja fé í atvinnuuppbyggingu á Grænlandi. Stór alþjóðleg fyrirtæki hafa á síðustu árum sömuleiðis sýnt Grænlandi mikinn áhuga, þann áhuga þarf að nýta með skynsamlegum hætti segja dönsku sérfræðingarnir. Allt sé þetta á byrjunarreit en rýnt sé að Grænlendingar leggi „innansveitarþras“ til hliðar og einbeiti sér í sameiningu að þeim brýnu verkefnum sem við blasi. „Þá mun sólin aftur rísa yfir Grænlandi“ sagði einn dönsku sérfræðinganna.