Erfingjar Steingríms Hermannssonar, fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, það er eftirlifandi eiginkona hans og sex börn Steingríms, voru dæmd í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag til að greiða námslán eins sona Steingríms frá fyrra hjónabandi. Á meðal hinna dæmdu er Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar.
Steingrímur var ábyrgðarmaður fyrir námslánum sem sonur hans tók hjá LÍN á árunum 1983 til 1987, en sonur hans er yngsta barn Steingríms af þremur sem hann eignaðist með þáverandi konu sinni í Bandaríkjunum. Krafa Lín vegna námslánsins. hljóðaði upp á tólf milljónir króna.
Steingrímur lést í febrúar árið 2010, en mánuði síðar lenti sonur hans í vanskilum með afborganir af láninu. Erfingjar Steingríms fengu hins vegar ekki vitneskju um að það væri komið í vanskil og hefði verið gjaldfellt í kjölfarið fyrr en tæpum þremur árum síðar.
Erfingjar Steingríms vildu að málið yrði látið niður falla þar sem LÍN hefði sýnt af sér stórbrotna vanrækslu með því að tilkynna þeim ekki um stöðu lánanna, né að þau hefðu verið gjaldfelld. Á það féllst Héraðsdómur ekki.
Í dómi Héraðsdóms eru erfingjar Steingríms Hermannssonar dæmdir til að greiða Lánasjóði íslenskra námsmanna rúmar tólf milljónir króna. Sonur Steingríms sem fékk námslánið greiðir auk þess dráttarvexti af láninu síðan 2001, aðrir greiða dráttarvexti frá 10. desember síðastliðnum.
Í samtali við RÚV segir Guðmundur Steingrímsson að hann eigi ekki von á öðru en að dómnum verði áfrýjað til Hæstaréttar.