Erla Björg Gunnarsdóttir hefur verið ráðin ritstjóri fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar. Hún tekur við starfinu af Þóri Guðmundssyni, sem hefur leitt fréttastofuna í tæp fjögur ár. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá fjölmiðlafyrirtækinu, þar sem Þóri er þakkað fyrir góð störf.
Frekari skipulagsbreytingar hafa verið gerðar hjá miðlum Sýnar, en Kolbeinn Tumi Daðason sem hefur verið fréttastjóri Vísis síðustu sjö ár, verður nú fréttastjóri allra miðla fréttastofunnar.
Í tilkynningunni um þessar breytingar er haft eftir Þórhalli Gunnarssyni framkvæmdastjóra fjölmiðla Stöðvar 2 og Vodafone að markvisst hafi verið unnið að því að sameina miðla fréttastofunnar að undanförnu og stefnan sé sett á að efla þá enn frekar.
„Á fréttastofunni starfar einstakur hópur fagfólks sem þau Erla Björg og Kolbeinn Tumi munu leiða. Þeirra hlutverk er að móta áherslur og fréttaflutning miðla okkar til framtíðar. Ég ber mikið traust til þeirra enda eru þau afburða fréttamenn og öflugir stjórnendur,“ er haft eftir Þórhalli í tilkynningunni.
Hann segist þakklátur Þóri Guðmundssyni „fyrir hans góða starf enda hefur hann leitt fréttastofuna í tæp fjögur ár með sinni miklu reynslu og þekkingu“ og segir Þórhallur að Þórir hafi sýnt styrk sinn þegar sú ákvörðun var tekin fyrr á þessu ári að setja kvöldfréttir Stöðvar 2 í áskrift.
„Sú aðgerð heppnaðist einstaklega vel með mikilli fjölgun áskrifenda og styrkti þannig rekstargrundvöll fréttastofunnar,“ er haft eftir Þórhalli.
Erla Björg hefur verið fréttamaður Stöðvar 2 undanfarin fimm ár og þar af fréttastjóri í tvö ár. Að auki hefur hún verið umsjónarmaður fréttaskýringarþáttarins Kompáss og hlaut blaðamannaverðlaun í fyrra ásamt öðrum Kompásliðum fyrir viðtal ársins. Áður var Erla blaðamaður á Vísi og Fréttablaðinu, var þar m.a. vaktstjóri og umsjónarmaður helgarblaðsins.
Hún segir að það sé „mikill heiður að taka við góðu starfi Þóris og leiða þann öfluga hóp sem starfar á fréttastofunni“.
Kolbeinn Tumi hefur verið fréttastjóri Vísis frá árinu 2014 en hafði starfað árin tvö á undan sem íþróttafréttamaður á Fréttablaðinu og Vísi og sem lýsandi á Stöð 2 Sport.
„Það hefur verið heiður að starfa með Þóri og ég hlakka til áframhaldandi samstarfs okkar Erlu. Á fréttastofunni vinnur harðduglegt, hugmyndaríkt og skemmtilegt fagfólk með það að markmiði hvern einasta dag að flytja fólkinu í landinu traustar fréttir. Á því verður engin breyting,“ er haft eftir Kolbeini Tuma í tilkynningu.