Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi blaðamanninum Erlu Hlynsdóttur í vil í máli gegn íslenska ríkinu og komst að þeirri niðurstöðu að dómur Hæstaréttar í meiðyrðamáli gegn henni frá árinu 2010 væri brot á manréttindasáttmála Evrópu. Þetta staðfestir Gunnar Ingi Jóhannsson, hæstaréttarlögmaður sem starfað hefur fyrir Erlu, í samtali við Kjarnann. Þetta er í þriðja sinn sem dómstóllinn dæmir Erlu í vil í máli sem hún hefur höfðað fyrir honum gegn íslenska ríkinu.
Í málinu sem var til umfjöllunar í morgun var fjallað um dóm Hæstaréttar Íslands frá árinu 2010 í meiðyrðamáli gegn Erlu vegna fréttar sem hún skrifaði í DV árið 2007 þar sem fullyrt var að Rúnar Þór Róbertsson væri „kókaínsmyglari“. Fréttin fjallaði um sakamál sem höfðað hafði verið gegn Rúnari Þór vegna innflutnings á um 3,8 kílóum af kókaíni sem ætlað var til söludreifingar. Hann var hins vegar sýknaður í héraðsdómi um viku eftir að fréttin birtist og sú niðurstaða var síðar staðfest í Hæstarétti. Rúnar Þór var í millitíðinni dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir aðild sína að öðru fíkniefnasmygli, sem oftast gengur undir nafninu „Papeyjarsmyglið“.
Í dómi Hæstaréttar frá árinu 2010 voru ummælin „kókaínsmyglarar“ og fullyrðingin „í þeirri trú að kókaínið væri á sínum stað“ dæmd dauð og ómerk. Erlu, og Sigurjóni M. Egilssyni, þáverandi ritstjóri DV, var gert að greiða Rúnar Þór 150 þúsund krónur í bætur vegna þessa.
Erla vildi ekki una þeirri niðurstöðu og vísaði henni til Mannréttindadómstóls Evrópu sem felldi dóm sinn í morgun.
Þriðja sinn sem Erla fer með mál þessa leið
Þetta er í þriðja sinn sem Erla fer með mál fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Í júlí 2012 komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu með því að dæma Erlu fyrir meiðyrði í desember 2009 fyrir ummæli um eiganda nektardansstaðarins Strawberries sem hún hafði eftir viðmælanda. Íslenskir dómstólar gerðu Erlu persónulega ábyrga fyrir ummælum viðmælanda síns og dæmdu hana bótaskylda. Íslenska ríkinu var gert að greiða Erlu skaðabætur.
Sama dag komst Mannréttindadómstólinn að sömu niðurstöðu í máli annarrar blaðakonu, Bjarkar Eiðsdóttur, sem dæmd hafði verið meiðyrði vegna ummæla sem höfð voru eftir viðmælanda. Niðurstaðan var sú sama utan þess að Björk fékk hærri bætur.
Í október 2014 kvað Mannréttindadómstóllinn upp dóm í öðru máli Erlu gegn íslenska ríkinu. Því var vísað til dómstólsins eftir að Hæstiréttur Íslands dæmdi Erlu fyrir meiðyrði vegna ummæla sem höfð voru eftir viðmælanda í frétt um eiginkonu Guðmundar Jónssonar, kenndum við Byrgið, sem birt var í DV þann 31. ágúst 2007.
Mannréttindadómstóllinn komst að þeirri niðustöðu að brotið hefði verið gegn 10. grein mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi og dæmdi íslenska ríkið til að greiða Erlu 1,2 milljónir króna vegna málsins.