Gestir á Iceland Airwaves hátíðinni í ár verða rúmlega níu þúsund, að sögn Gríms Atlasonar, framkvæmdastjóra hennar. Uppselt er á hátíðina, sem fer fram daganna 5-9 nóvember næstkomandi, níunda árið í röð. Í fyrra voru gestir hennar tæplega átta þúsund talsins. Þeim fjölgar því tæp þrettán prósent á milli ára. Miði á hátíðina kostaði 18.500 krónur í almennri sölu. Hafi allir miðar á hátíðina farið á því verði væri miðasöluhagnaður af henni 166,5 milljónir króna.
Erlendir gestir rúmlega tvöfalt fleiri
Grímur segir að um 4.000 Íslendingar og rúmlega 5.000 erlendir gestir hafi tryggt sér miða á hátíðina í ár. Fjöldi gesta hefur vaxið hratt undanfarin ár. Þeir voru alls um 6.300 árið 2010, 6.800 árið eftir og um 7.000 árið 2012. Í fyrra voru þeir síðan 7.974 alls. Fjöldi seldra miða hefur því aukist um 2.700 frá árinu 2010, eða um 30 prósent.
Erlendum gestum hefur fjölgað gríðarlega á síðustu árum. Árið 2010 komu 2.215 slíkir á Iceland Airwaves. Í ár eru þeir yfir 5.000
Erlendum gestum hefur fjölgað gríðarlega á síðustu árum. Árið 2010 komu 2.215 slíkir á Iceland Airwaves. Í ár eru þeir yfir 5.000. Fjöldi þeirra hefur því meira en tvöfaldast á síðustu árum. Flestir erlendu gestanna koma frá Bandaríkjunum, Þýskalandi og Bretlandi. Það er enda ein af þremur meginstoðum hátíðarinnar, sem er haldin í samstarfi við Icelandair og Reykjavíkurborg, að fjölga ferðamönnum í höfuðborginni utan háannartíma. Hinar tvær stoðirnar eru að koma íslenskri tónlist á framfæri erlendis og að halda tónlistarhátíð á heimsmælikvarða.
Eyða fullt af peningum í Reykjavík
Efnahagslega skiptir koma allra þessarra erlendu ferðamanna líka miklu máli. Árið 2012 eyddu gestir Iceland Airwaves alls um 1,1 milljarði króna innan Reykjavíkur, samkvæmt könnun sem aðstandendur hátíðarinnar og Útón gerðu. Meðalgesturinn sem kemur á Iceland Airwaves var, samkvæmt sömu könnun, 30 ára gamall. Hann gisti á hóteli eða gistiheimili og eyddi að meðaltali 200 þúsund krónum í Reykjavík á meðan að hann dvaldi í henni, sem er um 6,7 dagar að meðaltali. Auk þess eyða gestirnir töluverðum fjármunum utan Reykjavíkur, til dæmis í Bláa lóninu.
Alls munu 220 tónlistarmenn koma fram á Iceland Airwaves í ár. Til viðbótar við hátíðina sjálfa eru haldnir alls 674 svokallaðir „off-venue“ tónleikar á hátíðinni í ár. Þeir eru haldnir víðsvegar um Reykjavík og búast aðstandendur við að fjöldi þeirra sem muni sækja þá tónleika verði á bilinu 50 til 60 þúsund manns.