Ef erlendir aðilar kaupa 95 prósent hlut kröfuhafa Glitnis í Íslandsbanka mega þeir ekki selja íslenskum aðilum bankann aftur næstu fimm árin. Þetta kemur fram í erindi sem kröfuhafarnir sendu stjórnvöldum fyrir hádegi síðastliðinn mánudag, skömmu áður en blaðamannafundur um áætlun stjórnvalda um losun hafta hófst.
Fréttablaðið greinir frá þessu og segir að skilyrðið sé komið frá kröfuhöfunum sjálfum, ekki Íslandsbanka, í því skyni að fá sem mest af virði sölu bankans til erlends aðila. Þar er haft eftir Páli Eiríkssyni, sem situr í slitastjórn Glitnis, að hann túlki fyrrgreinda grein í bréfi kröfuhafa til stjórnvalda þannig að í þessu felist að Íslandsbanki verði ekki í eigu innlendra aðila næstu fimm árin. "Þú sérð það nú bara á þessari til kynningu sem er á vefnum hjá ráðuneytinu að þar eru menn að undirgangast það að bankinn verði ekki í eigu innlendra aðila að minnsta kosti næstu fimm árin," segir Páll við Fréttablaðið.
Kjarninn greindi frá því á mánudag að búist sé við því að erlendir fjárfestar í Íslandsbanka verði kynntir til leiks í næstu viku. Viðræður við nokkra hópa hafa staðið yfir um nokkurra mánaða skeið og þeir sem hafa sýnt mestan áhuga koma annars vegar frá löndum við Persaflóa í Mið-Austurlöndum og hins vegar frá Kína. Samkvæmt heimildum Kjarnans er um að ræða risastór fyrirtæki sem eiga þegar hluti í alþjóðlegum bönkum. Einhverjir hópanna rituðu undir viljayfirlýsingu um kaup á bankanum í febrúar síðastliðnum.
Tveir möguleikar í stöðunni
Tvennt er í stöðu Glitnis er varðar sölu 95 prósent eignarhlutar í Íslandsbanka og skiptingu söluverðsins milli kröfuhafa og stjórnvalda. Ef bankinn verður seldur erlendum aðilum fyrir gjaldeyri þá mun ríkið fá 60 prósent söluandvirðis, en þó eigi meira en 60 prósent af bókfærði virði eigin fjár sem yrði um 119 milljarðar við söluna. Það myndi þýða að ríkið fengi um 71 milljarð í gjaldeyri ef bankinn er seldur erlendum aðilum.
Samkvæmt erindi kröfuhafanna lítur málið öðruvísi út ef bankinn er seldur innlendum aðilum. Þá yrði gefið út 119 milljarða veðtryggt skuldabréf á 5,5 prósent vöxtum til stjórnvalda, greitt við sölu 95 prósent hlutar Glitnis í Íslandsbanka. Endurheimtur bréfsins yrðu jafnmiklar og söluandvirði bankans, upp að 119 milljörðum króna. Söluandvirði hærra en 119 milljarðar og upp að 136 milljörðum myndi skiptast til helminga milli kröfuhafa og ríkisins. Söluandvirði hærra en 136 milljarðar króna myndi renna að 75 prósent hluta til ríkisins.