Um 62.700 erlendir ferðamenn fóru frá landinu í janúar samkvæmt talningu Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Það eru um 16.100 fleiri erlendir ferðamenn en í janúar á síðasta ári. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Ferðamálastofu Íslands.
Aukningin nemur 34,5 prósentum á milli ára, en adrei hafa fleiri ferðamann mælst í janúar frá því að mælingar Ferðamálastofu hófust.
Samkvæmt talningu Ferðamálastofu eru Bretar og Bandaríkjamenn helmingur ferðamanna.
Hátt í áttatíu prósent ferðamanna í janúar voru af tíu þjóðernum. Bretar voru fjölmennastir eða 34,6 prósent af heildarfjöldanum, en næst fjölmennastir voru Bandaríkjamenn eða 14,9 prósent.
Þar á eftir fylgdu Frakkar (5,1 prósent), Þjóðverjar (4,7 prósent), Japanir (3,4 prósent) og Danir (3,4 prósent).
Bretum, Bandaríkjamönnum og Frökkum fjölgaði mest á milli ára en 5.110 fleiri Bretar komu í janúarmánuði síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra. Þá komu 2.607 fleiri Bandaríkjamenn til landsins í janúar en árið áður og 1.225 fleiri Frakkar. Þessar þrjár þjóðir báru að mestu uppi aukninguna sem varð í janúar eða um 55,5 prósent af heildaraukningunni.
Á síðustu fimm árum hefur fjöldi ferðamanna í janúar nærri þrefaldast, en þar munar mestu um mikla fjölgun Breta, en fjöldi ferðamanna frá Bretlandseyjum hefur fimmfaldast frá árinu 2010.
Loks má geta þess að um 27 þúsund Íslendingar héldu utan í janúar, eða 1.800 fleiri en í sama mánuði árið 2014. Það er aukning upp á sjö prósent á milli ára.