Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata, vill að stjórnarandstöðuflokkarnir á Alþingi myndi kosningabandalag fyrir næstu þingkosningar sem hafi það að markmiði að ljúka vinnu við nýja stjórnarskrá og tryggja að þjóðin fái að kjósa um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið.
Og viti menn, foringjar stjórnarandstöðuflokkanna taka vel í hugmyndina ótrúlegt en satt. Enda staðan þar á bæ ekki spennandi. þrátt fyrir ríkisstjórn í ólgusjó.
Þrátt fyrir sterkan og vinsælan formann virðist Vinstri grænum fyrirmunað að sækja í sig veðrið af einhverjum ástæðum, Samfylkingin er svo gott sem ónýt eftir eldfiman landsfund og fáir vita eiginlega hvað Björt framtíð er að sýsla.
Píratar eru hins vegar á mikilli siglingu og mælast stærsti stjórnmálaflokkur landsins, eins ótrúlega og það kann að hljóma. Greinendur skýra fylgisaukninguna með hófstilltri og málefnalegri framgöngu þingmanna flokksins, og þá ekki síst Helga Hrafns Gunnarssonar, og almennt óþol fyrir fjórflokknum, sem Björt framtíð tilheyrir þó hún reyni að selja þér annað. Hvort núverandi fylgi Pírata skilar sér í Alþingiskosningum skal ósagt látið, en það gæti alveg gerst.
Pæling dagsins: Ætli það þurfi nú magnaða söluræðu til að tala stjórnarandstöðuflokkanna inn á að teika Píratana mögulega til valda? Er ekki einmitt helsta von þeirra að flagga ekki sinni eigin forystu heldur fela sig á bakvið Píratana?
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.