Evrópusambandið óttast að ný lög í Rússlandi, sem hefta framgang frjálsra alþjóðlegra félagasamtaka sem ekki eru á vegum hins opinbera, grafi undan mannréttindum. Samkvæmt frásögn Reuters fréttastofunnar, tóku lögin gildi á laugardaginn en þau heimila yfirvöldum að grípa til aðgerða gegn alþjóðlegum samtökum og hópum með banni. Síðan er einnig heimilt ákæra starfsfólk samtakanna eða reka það úr landi, en samkvæmt lögunum er hámarksrefsing sex ára fangelsi.
Í viðtali við Yahoo fréttaveituna, er haft eftir talsmanni skrifstofu utanríkismála hjá Evrópusambandinu að þessi löggjöf sé áhyggjuefni og hefti tjáningar- og fjölmiðlafrelsi. Auk þess virðist þau fara gegn stjórnarskrá Rússlands.
Óttast Evrópusambandið, og fleiri sem hafa gagnrýnt þessi lög, að með þessari löggjöf geti stjórnvöld, með Vladímir Pútín forseta í broddi fylkingar, gripið til aðgerða gegn „hverjum sem er“, fyrirtækjum jafnt sem samtökum, og vísað þá til þess að aðgerðirnar standist lög.
Rússland hefur gengið í gegnum efnahagslegan ólgusjó að undanförnu, eftir að olíuverð lækkaði skarpt, úr 110 Bandaríkjadölum á fatið niður fyrir 50 dali, á ríflega sjö mánaða tímabili. Því fylgdi mikið fall rúblunnar, og neikvæð margfeldisáhrif á rússneska hagkerfið. Í ofanálag eru viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins og Bandaríkjanna í fullu gildi ennþá, vegna átakanna í Úkraínu, sem gerir Rússum erfiðara um vik í að spyrna við fótum.