Evrópusambandið (ESB) ætlar ekki að taka þátt í gerð viðskiptasamninga sem markaðsvæða grunnþjónustu í heilbrigðiskerfum aðildarlanda þess. Ákvörðun um skref í þá átt séu alfarið í höndum aðildarríkjanna sjálfra. Slík skref verði hins vegar ekki stigin á vettvangi sambandsins né í viðskiptasamningum sem það gerir fyrir hönd sinna aðildarríkja. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sendi frá sér í gærkvöldi vegna leka á, og umfjöllunar um, tillögu Tyrklands um viðauka við TISA-samninginn svokallaða.
Tillaga Tyrkja snérist um að auka samkeppni um heilbrigðisþjónustu á milli landa með því að markaðsvæða þjónustuna. Kjarninn hefur birt fréttir sem byggja á gögnunum undanfarna daga en hann tók þátt í birtingu þeirra í samstarfi við Associated Whistleblowing Press (AWP) og fjölmiðla víðsvegar um heiminn. Kjarninn var eini íslenski fjölmiðillinn sem var hluti af því samstarfi.
Ætla sér ekki að hætta gæðum heilbrigðiskerfa
Í tilkynningu framkvæmdastjórnarinnar segir að Evrópusambandið hafi ekki, og ætli sér ekki, að taka neinar skuldbindandi ákvarðanir sem varða grunnheilbrigðisþjónustu sem er fjármögnuð með opinberu fé í þeim viðskiptasamningaviðræðum sem það tekur þátt í, þar með talið TISA. „Evrópusambandið hefur alltaf undirstrikað skuldbindingu sína gagnvart því að verja opinbera þjónustu á öllum stigum stjórnsýslunnar[...]Allar ákvarðanir um að afregluvæða, einkavæða eða færa slíka þjónustu á einkamarkað er algjörlega undir ríkisstjórnum þjóða komið[...]Viðskiptasamningar Evrópusambandsins munu ekki breyta því; TISA mun ekki breyta því, né mun TISA krefjast þess að ríkisstjórnir Evrópusambandsríkja eða heilbrigðiskerfi þeirra setji neitt á markað“.
Cecila Malmström, framkvæmdastjóri viðskipta hjá Evrópusambandinu, segir á sama vettvangi að hún vilji taka allan vafa af um að hún myndi „aldrei leggja til viðskiptasamkomulag sem fæli í sér ákvæði um flytjanleika heilbrigðisþjónustu. Ég lít ekki á hana sem viðskiptalegt viðfangsefni og Framkvæmdastjórnin mun ekki hætta hinum miklu gæðum sem heilbrigðiskerfin okkar búa yfir í viðskiptasamningi“.
Ísland tekur þátt
Ísland er eitt þeirra 50 landa sem er aðili að TISA-viðræðunum, sem eiga að auka frelsi í þjónustuviðskiptum milli landa og því vöktu fréttir um tillögu Tyrkja mikla athygli hérlendis þegar þær birtust á miðvikudag.
Utanríkisráðuneytið sendi frá sér tilkynningu strax um kvöldið þar sem fram kom að Ísland telji ekki að viðaukinn, sem Tyrkland lagði fram í september síðastliðnum, ætti heima í TISA-samningnum.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra út í TISA-málið á Alþingi í gær.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra út í málið á Alþingi í gær. Þar sagði Kristján að enginn starfsmaður velferðarráðuneytisins hafi haft aðkomu að TISA-viðræðunum, hann hafi ekkert heyrt um tillögu um viðauka við samninginn sem í fólst að fella markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustu undir hann og að afstaða Íslands til þessa hafi ekki verið borin undir hann.
Aðspurður um leyndina sem hvílir yfir samningsgerðinni og hvort hann væri sammála þeirri afstöðu utanríkisráðuneytisins að taka ekki þátt í viðræðum um viðaukann sagði Kristján: „Það er margt á huldu í utanríkisráðuneytinu og utanríkismálum. Það er alveg á hreinu.“ Hann hafi hins vegar engar forsendur til að tjá sig um eða taka afstöðu til máls sem hann þekki ekki „hætishót“ til.
Utanríkisráðuneytið sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem þessu var hafnað. Þar kom fram að utanríkisráðuneytið upplýsti velferðarráðuneytið um framlagningu tillögu að viðauka við TISA-samninginn sem í felst mikil markaðsvæðing á heilbrigðisþjónustu. Þetta gerði ráðuneytið þann 6. janúar síðastliðinn. Um leið var boðað til samráðsfundar um TISA-viðræðurnar með öllum tengiliðum í fagráðuneytum til að fara yfir stöðu viðræðnanna. Fulltrúi velferðarráðuneytisins tók þátt í þeim fundi, en hann fór fram 14. janúar 2015.
Næsta samningslota í TISA-viðræðunum, sú tíunda, fer fram í næstu viku.