Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna munu halda annan neyðarfund í dag vegna straums flóttamanna yfir Miðjarðarhafið til Evrópu. Ætlunin er að ræða leiðir til þess að stemma stigu við fjölda þeirra flóttamanna sem leggja í hættuför yfir hafið til að komast frá heimkynnum sínum.
Drög að tillögum fela meðal annars í sér að ráðist verði í hernaðaraðgerðir til þess að eyðileggja báta og skip sem notuð eru við flutninga á fólki yfir Miðjarðarhafið. Fleiri en 800 einstaklingar drukknuðu undan ströndum Líbíu á sunnudag, og yfir 1.750 manns hafa látist á þessari leið á þessu ári.
Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, hefur kallað eftir því að gripið verði til aðgerða gegn mansali. Hann sagði þá sem flytja fólk með þessum hætti vera þrælahaldara 21. aldarinnar. Langflestir flóttamannanna reyna að komast til Ítalíu og Möltu.
Samkvæmt AFP fréttastofunni kemur fram í drögum að aðgerðum Evrópusambandsins að leiðtogar muni skuldbinda sig til þess að ráðast í kerfisbundnar aðgerðir til að bera kennsl á, fanga og eyðileggja farartæki áður en þau eru notuð. Federica Mogherini, utanríksmálastjóri ESB, er samkvæmt drögunum beðin um að hefja strax undirbúning að öryggis- og varnaraðgerðum.
Meðal annarra aðgerða sem grípa á til er að styðja betur við Sameinuðu þjóðirnar í því að reyna að tryggja stöðuga ríkisstjórn í Líbíu. 90% þeirra sem reyna að fara yfir Miðjarðarhafið á bátum fara frá Líbíu, að sögn ítalskra stjórnvalda.
Einnig er búist við því að rætt verði hvernig eigi að taka á móti þeim flóttamönnum sem koma til Evrópu. Tillaga um að dreifa flóttamönnum á jafnari hátt meðal allra ESB-ríkjanna er mjög umdeild.
Einstaklingum sem hafa flúið stríð og fátækt í Miðausturlöndum og Afríku hefur fjölgað gríðarlega undanfarna mánuði.