Utanríkisráðherrar 28 Evrópusambandsríkja hafa samþykkt aðgerðir til þess að vinna gegn hryðjuverkaógn frá hryðjuverkasamtökum í Mið-Austurlöndum. Federica Mogherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, tilkynnti eftir fund utanríkisráðherranna í kvöld, að lykilatriði væri að styrkja samband við Arabaríkin og ríkin þar sem hryðjuverkamenn hefðu hreiðrað um sig. Þannig væri hægt að ná varanlegum árangri og auka þekkingu á rótum vandamálanna, og bæla niður hryðjuverkaógnina innan frá til langs tíma.
Mogherini sagði að sérstökum verkefnum yrði ýtt úr vör, í samvinnu við Tyrkland, Jemen, Alsír, Egyptaland og ríki við Persaflóa, með það fyrir augum að styrkja utanríkispólitískt samband við ríki þar sem múslímar væru í meirihluta. Mogherini vildi ekki fara út í nákvæmisatriði þegar hún var spurð út í það í hverju verkefnin fælust, segir í frásögn BBC.
Fundurinn var boðaður á sama tíma og hryðjuverkaógn hefur verið viðverandi í Brussel, eftir að 17 óbreyttir borgarar voru drepnir í París, í árásum á ritstjórnarskrifstofu skopmyndaritsins Charlie Hebdo og verslunarkjarna Gyðinga. Opinberar byggingar í Brussel eru vaktaðar af lögreglu og þungvopnuðum hermönnum.
Eitt af því sem lögregluyfirvöld í Evrópu óttast er að evrópskir borgarar, sem hafa tekið þátt í hernaði í Írak og Sýrlandi, muni snúa aftur til baka og fremja morð og glæpi. Þúsundir Evrópubúa hafa farið til landanna tveggja, samkvæmt upplýsingum sem teknar hafa verið saman af yfirvöldum í Evrópuríkja.