Leiðtogar Evrópusambandsins hafa í fyrsta sinn formlega rætt þann möguleika að greiðslufall verði hjá Grikkjum. Reuters greinir frá þessu og segir að þetta hafi verið rætt á undirbúningsfundi fyrir fund fjármálaráðherra evruríkjanna sem fer fram í næstu viku.
Reuters segir að þrír möguleikar hafi verið ræddir varðandi lausn á skuldamálum Grikkja. Ólíklegasta niðurstaðan er talin vera að komist verði að nýju samkomulagi milli Grikkja og lánardrottna þeirra á réttum tíma svo þeir geti staðið við skuldbindingar sínar eftir að núverandi samkomulag rennur út í lok mánaðar. Annar möguleikinn er að komist verði að samkomulagi um að framlengja núverandi samkomulag, sem rennur út á sama tíma og Grikkir eiga að borga 1,6 milljarð evra til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Þriðji möguleikinn, sem var ræddur í fyrsta skipti nú að sögn Reuters, er að Grikklandi verði leyft að fara í greiðslufall.
Flestir embættismennirnir á fundinum eru sagðir hafa haldið því fram að ólíklegt sé að samkomulag náist um umbætur sem Grikkir eiga að ráðast í til að fá áframhaldandi neyðarlán frá AGS og ESB. „Það myndi krefjast mikilla framfara á nokkrum dögum sem ekki hafa náðst á mörgum vikum,“ hefur Reuters eftir ónefndum embættismanni.
Grikkir eru hins vegar sagðir ætla að gera allt sem þeir geta til að ná samkomulagi í tíma. Í eftirmiðdaginn bárust fréttir af því að grísk stjórnvöld séu á leið til Brussel þar sem fundað verði í fyrramálið. Grikkir séu nú tilbúnir að koma fram með nýjar tillögur að umbótum og að aldrei hafi aðilarnir verið nær samkomulagi.