Michel Platini, forseti knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, segir að mikill meirihluti evrópskra knattspyrnusambanda muni ekki styðja Sepp Blatter, núverandi forseta Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, í forsetakjörinu sem á að fara fram á morgun. Þess í stað muni samböndin styðja jórdanska prinsinn Ali sem forseta.
Öll 54 knattspyrnusamböndin í Evrópu, þar á meðal fulltrúar KSÍ, funduðu í Zurich í Sviss í dag til að ræða spillingarmálin sem komin eru upp á yfirborðið. Í gær voru níu háttsettir menn innan FIFA handteknir og ákærðir í Bandaríkjunum fyrir mútuþægni, peningaþvætti og fleira. Á morgun á að hefjast aðalfundur sambandsins þar sem Blatter er í framboði til áframhaldandi setu sem forseti, gegn Ali.
Platini ræddi við fjölmiðla rétt í þessu. Hann sagði að nú væri nóg komið. „Fólk vill ekki Sepp Blatter lengur og ég vil hann ekki lengur heldur. Ég hef alltaf sagt að við viljum að FIFA sé sterkt en FIFA er ekki sterkt lengur. Ég er enn að reyna að sannfæra nokkur evrópsk knattspyrnusambönd sem eru ekki alveg sannfærð,“ sagði hann, en tók ekki fram hvaða knattspyrnusambönd það væru.
Platini sagðist hafa talað við Sepp Blatter um málið. „Ég sagði honum að fara, að stíga til hliðar, vegna þess að þú svertir ímynd FIFA. Það er ekki auðvelt að segja vini að hann verði að fara en það er þannig sem sagan fer. Ég segi þetta með trega, með tár í augunum. Það hafa verið of margir skandalar.“ Blatter hafi hins vegar sagt að það væri of seint að hætta, það væri of stutt í að þing sambandsins hæfist.
Á fundi UEFA í dag tilkynnti David Gill, fyrrverandi stjórnarformaður Manchester United, að hann myndi segja af sér sem varaforseti FIFA ef Sepp Blatter ber sigur úr býtum í kosningunum á morgun. Hann á að verða varaforseti frá og með morgundeginum, en hann er í stjórn bæði Evrópska knattspyrnusambandsins og þess breska.