Starfsfólk sem ekki hefur fasta vinnuskrifstofu er sannarlega í vinnunni þegar það ferðast til og frá vinnu á daginn, samkvæmt niðurstöðu Evrópudómstólsins. Dómstóllinn sagði niðurstöðuna mikilvæga til að vernda heilsu og öryggi starfsfólks en samkvæmt frétt BBC um málið varðar það milljónir starfsmanna í Evrópu, til dæmis iðnaðarmenn og sölumenn.
Upphaf málsins má rekja til starfsmannadeilna innan spænska fyrirtækisins Tyco, sem selur og setur upp öryggiskerfi. Fyrirtækið lokaði skrifstofum sínum árið 2011 og lét starfsmenn þess í stað ferðast til vinnu, hvar sem hún var hverju sinni, beint frá heimilum sínum. Var það niðurstaða Evrópudómstólsins að starfsmenn væru vissulega í vinnunni þegar þeir ferðast til og frá heimili sínu í þessum tilvikum og væri nauðsynlegt skilgreiningaratriði til að tryggja heilsu og öryggi þeirra, enda ættu starfsmenn ekki að bera ábyrgð á ákvörðun vinnuveitenda um að hafa ekki fasta vinnuaðstöðu.