Starfsfólk Evrópustofu undirbýr lokun stofunnar og verið er að draga úr kjarnaverkefnum. Samningur um rekstur Evrópustofu rennur út í lok ágúst og engar ráðstafanir hafa verið gerðar um framhaldið. Fréttastofa RÚV greinir frá lokun stofunnar og hefur eftir Dóru Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Evrópustofu, að það hafi í raun verið ljóst frá áramótum að það yrði ekki framlengt.
Evrópustofa hefur verið rekin með IPA-styrkjum frá Evrópusambandinu síðan ársbyrjun 2012. Markmiðið með starfseminni hefur verið að auka skilning og þekkingu á Evrópusambandinu og hvetja til umræðu um kosti og galla mögulegrar aðildar Íslands að sambandinu. Ísland er ekki lengur á lista yfir umsóknarríki að Evrópusambandinu.
Fram kemur í frétt RÚV að andstæðingar ESB hafi frá upphafi gagnrýnt starfsemi Evrópustofu og ásakað hana um áróður með aðild að sambandinu. Dóra segir að þótt starfsfólk hafi ekki fundið fyrir gagnrýninni persónulega þá hafi það orðið vart við umræðuna. „Þetta er mjög sérkennilegt þar sem Evrópustofa er fyrst og fremst upplýsingaskrifstofa,“ segir hún.