Evruhópurinn, sem samanstendur af fjármálaráðherrum evruríkjanna, hafnaði í kvöld tillögum Grikkja um að fá framlengingu á núverandi samkomulagi um neyðarlán, sem rennur út á miðnætti. Grikkir höfðu lagt fram tillögu að nýjum tveggja ára samningi en einnig óskuðu þeir eftir því að samningurinn sem rennur út á miðnætti yrði framlengdur um nokkra daga á meðan hægt væri að ganga frá nýjum samningi.
Fjármálaráðherrarnir héldu símafund í kvöld þar sem ákveðið var að hafna tillögum Grikkja. Forseti hópsins, Jeroen Dijsselbloem, sagði að það væri brjálæði að framlengja núverandi samkomulag þar sem stjórnvöld í Aþenu neituðu að taka tillögunum sem Evrópusambandið hafði lagt fram. Hann sagði jafnframt að tillögur Grikkja að nýjum neyðarlánasamningum yrðu skoðaðar seinna. Samkvæmt tillögum Grikkja myndu þeir fá 29,1 milljarð evra í neyðarlán á næstu tveimur árum.
Nú klukkan 22 að íslenskum tíma rennur út frestur Grikkja til þess að borga til baka 1,5 milljarð evra til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ekkert bendir til þess að þeir muni endurgreiða fjárhæðina, og þá mun Christine Lagarde, framkvæmdastjóri sjóðsins, upplýsa stjórn hans um að greiðslan hafi ekki borist. Samkvæmt lánasamningum geta evruríkin við þessar aðstæður krafist þess að Grikkir borgi til baka strax þá 180 milljarða evra sem þau hafa þegar lánað Grikkjum, auk vaxta.
Samkvæmt samningunum telst það að missa af greiðslu til AGS sem greiðslufall gríska ríkisins.
Þrátt fyrir þetta munu evruríkin ekki krefjast þessarar fjárhæðar til baka enda vita þau að Grikkland getur ekki með nokkru móti borgað til baka.