Greiðslukortavelta Íslendinga var 2,2 prósentum meiri í desember 2014 en í sama mánuði árið áður. Eftir að hafa dregist saman á þriðja ársfjórðungi síðasta árs tók kortavelta stökk upp á við á fjórða ársfjórðungi. Í verslun jókst hún til að mynda um 3,9 prósent á milli ára og alls jókst kortavelta um 3,3 prósent á árinu 2014. Þar var var velta í verslun innanlands 1,7 prósent hærri í fyrra en árið 2013 á föstu verðlagi. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans.
Í frétt um Hagsjánna á heimasíðu Landsbankans segir: „Kortavelta í verslun er góð vísbending um þróun einkaneyslunnar. Aukning var í vexti einkaneyslu fyrstu tvo fjórðunga ársins 2014 en mjög dró úr hraða aukningarinnar á þriðja fjórðungi í samræmi við tölur um kortaveltu. Á fjórða fjórðungi var aftur mikil aukning í kortaveltunni. Þessi aukning gefur til kynna að einkaneyslan hafi tekið við sér á fjórða fjórðungi".
Í samtali við Fréttablaðið segir Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans,að hann telji tölur um kortaveltu benda til þess að Hagstofan hafi vanáætlað einkaneyslu og þar af leiðandi hagvöxt, en nýjustu tölur hennar bentu til þess að hagvöxtur á árinu 2014 væri nánast enginn. „Okkur sýnist að vísbendingar, bæði varðandi kortaveltu og innflutning á neysluvörum, bendi til að vöxtur einkaneyslu hafi verið meiri en fyrstu bráðabirgðatölur Hagstofunnar bentu til," segir Daníel við Fréttablaðið.