Þegar hagfræðiprófessorinn Robert Aliber, sem er sérfræðingur í efnahagsbólum, kom til Íslands í maí 2008 spáði hann falli íslenska bankakerfisins. Hann einfaldlega taldi alla byggingakranana og komst að þeirri niðurstöðu að kerfið væri dauðdæmt. Aliber kom aftur til Íslands í október 2013. Þá taldi hann sjö byggingakrana og komst að þeirri niðurstöðu að það táknaði heilbrigt hagkerfi. Síðan þá hefur byggingakrönunum fjölgað verulega. Og útlit er fyrir að þeim muni fjölga enn meira á allra næstu misserum.Það lítur margt mjög vel út í íslensku hagkerfi um þessar mundir. Hagvöxtur er að mælast hár og spár gera ráð fyrir að hann muni ekki gera neitt annað en vaxa á allra næstu árum.
Verðbólga er sömuleiðis lág og atvinnuleysi á undanhaldi. Það er ýmislegt sem skapar þetta ástand. Á síðustu árum var aukinn útflutningur á vörum og þjónustu, sérstaklega ferðaþjónustu og sjávarfangi, meginorsök hagvaxtar. Frasinn um að túristar og makríll hafi bjargað Íslandi frá enn stærri skelli er ekki fjarri sannleikanum. Þá hefur hjálpað til að ríkið hefur hvatt þegna sína til að eyða meiru, meðal annars með því að leysa út séreignarsparnaðinn sinn. Skuldatiltektir af ýmsum toga hafa hjálpað til þar líka. Sterkt gengi krónunnar hefur auk þess haldið verðbólgu niðri.
Svikalogn í þensluástandi
Nú er hins vegar að skapast hér þensluástand. Íslendingar þekkja það ágætlega, enda ekkert svo langt síðan við gengum í gegnum nokkuð langt þenslutímabil sem hófst árið 2002 og lauk með fordæmalausu efnahagshruni haustið 2008. Á því tímabili jókst fjárfesting gífurlega, aðallega vegna þess að ódýrir útlenskir peningar flæddu inn í íslensku bankana, sem lánuðu þá aftur út til alls kyns misgáfulegra verkefna.
Ríkið hefði átt að halda að sér höndum á slíkum tímum og reyna að kæla hagkerfið. Í stað þess var það ofhitað með því að ráðast í að byggja Kárahnjúkavirkjun, stærstu framkvæmd Íslandssögunnar. Afleiðingarnar þess ferðalags þekkja allir. Hærri verðbólga, ójafnvægi í hagkerfinu, minnkandi viðskiptajöfnuður, hærri vextir og sparnaður hverfur.
Það er því ekki að ástæðulausu að þeim fjölgar dag frá degi, aðsendu greinunum í dagblöðunum frá sérfræðingum sem vara við því að illa geti farið. Það er svikalogn í loftinu og nauðsynlegt að halda mjög vel á spöðunum ef þetta góðærisferðalag á ekki að enda með sambærilegum skelli og það síðasta.
Skipt um gír
Á síðustu örfáu mánuðum virðist hagkerfið hafa skipt allhressilega um gír. Gríðarleg aukning í ásókn ferðamanna hingað til lands – þeir voru um 780 þúsund í fyrra, hefur leitt til þess að fjárfesting í þeim geira er komin á fleygiferð. Í byggingu eru nokkrir tugir hótela með vel á annað þúsund herbergi. Bara í Reykjavík munu verða byggð 1.200 hótelbergi á næstu þremur árum sem kosta um 30 milljarða króna.
Í kynningu sem Dagur B. Eggertsson, verðandi borgarstjóri, hélt fyrir borgarráð í byrjun mars kom fram að á árinu 2013 hefði verið hafin bygging 614 íbúða í höfuðborginni. Spár gera ráð fyrir að framkvæmdir hefjist við 4.200 íbúðir til viðbótar á næstu þremur árum og að kostnaður við þá uppbyggingu fari vel yfir hundrað milljarða króna. Þarna er verið að bregðast við mikilli uppsafnaðri eftirspurn eftir húsnæði, enda var lítið byggt af íbúðum á höfuðborgarsvæðinu á árunum eftir hrun. Húsnæðisverð er samhliða á fleygiferð upp á við. Ný Hagsjá Landsbankans spáir að hækkun þess verði níu prósent á þessu ári, 7,5 prósent á því næsta og sjö prósent árið 2016.
Á fyrirtækjasviðinu er Alvogen byrjað að byggja sér hátæknisetur og þeir tveir af stóru bönkunum sem náðu ekki að byggja sér stöðutáknshöfuðstöðvar í síðasta góðæri hafa tilkynnt að slíkar séu á döfinni.
Á sama tíma er verið að stækka Flugstöð Leifs Eiríkssonar, grafa tvenn göng fyrir á þriðja tug milljarða króna og byggja fangelsi.
Fjórar kísilverksmiðjur að rísa
Samhliða öllu þessu hafa fjögur erlend fyrirtæki hug á að byggja kísilverksmiðjur á Íslandi. Tvær þeirra hafa þegar samið um orku og hinar tvær eru með vilyrði um slíka. Íslenska ríkið hefur liðkað fyrir þessum framkvæmdum með því að gera ívilnanasamninga við þrjú fyrirtækjanna og hið fjórða er vongott um að fá slíkan mjög fljótlega. Heildarfjárfesting verkefnanna er um 150 milljarðar króna og fjöldi þeirra sem þurfa að vinna við byggingu verksmiðjanna fjögurra er svipaður og vann við gerð Kárahnjúkavirkjunar.
Í tengslum við alla þessa stóriðju þarf að búa til, og flytja, orku. Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og Landsnet hafa því öll afráðið að ráðast í mjög kostnaðarsamar framkvæmdir til að anna þeirri eftirspurn. Þær fara fram á sama tíma og allt ofangreint.
Ofþensla fram undan
Ef allar þessar framkvæmdir fara í gang á næstu þremur árum verður ofþensla á Íslandi. Hennar er þegar farið að gæta í verðbólguspám. Þegar tekið er tillit til þess að við eigum líka eftir að afnema gjaldeyrishöft sem falsa raunvirði íslensku krónunnar, og að flestir eru sammála um að hún muni lækka í verði við þá aðgerð, er ljóst að ástandið er mjög viðkvæmt og hið opinbera ætti að halda að sér höndunum til að auka ekki á þegar mikla þenslu.
Samt sem áður ætlar Reykjavíkurborg að hafa aðkomu að því að byggja 2.500-3.000 leiguíbúðir á næstu árum samkvæmt kosningaloforði Samfylkingarinnar. Og íslenska ríkið er undir miklum þrýstingi að ráðast í byggingu nýs Landspítala sem allra fyrst, en hann mun kosta á bilinu 50-80 milljarða króna.
Auk þess var farið í skuldaniðurfellingar sem í felst að 80 milljarðar króna renna til hluta heimila landsins á næstu árum og þegnarnir geta eytt séreignasparnaði upp að 70 milljörðum króna í að greiða niður höfuðstól húsnæðislána sinna. Þessar aðgerðir auka veðrými heimila mjög, auka einkaneyslu og eru að mati flestra greiningaraðila mjög verðbólguhvetjandi.
Lestu fréttaskýringu Kjarnans um þensluástandið í heild sinni í nýjasta Kjarnanum hér.