Fjármögnun hefur verið tryggt til byggingar 2.300 félagslegra íbúða á næstu fjórum árum, að sögn Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu í dag. Frumvörp Eyglóar um húsnæðismál er að finna á þingmálaskrá fyrir komandi þing, en fjögur frumvörp hennar náðu ekki fram að ganga á síðasta þingi. Þau þarf því að leggja fram aftur á nýju þingi.
Frumvörpin fjögur til laga voru um húsnæðisbætur, um húsnæðissamvinnufélögu, um breytingu á húsaleigulögum og um húsnæðismál. Hið síðastnefnda fjallaði um stofnstyrki til félagslegs húsnæðis, sem hefur verið tryggt samkvæmt ráðherra.
Fjármálaráðuneytið greindi Kjarnanum frá því þann 15. maí að frumvarp um stofnstyrki hefði verið dregið til baka úr kostnaðarmati í ráðuneytinu og ekki væri von á því að það yrði lagt fram aftur á þessu þingi, verið væri að skoða mjög breytta útgáfu af því frumvarpi. Fjármálaráðuneytið sagði að við greiningu á frumvarpinu hafi vaknað mörg álitaefni og í kjölfarið hafi velferðarráðuneytið hætt við að leggja fram frumvarpið. Samkvæmt þingmálaskrá verður það nú lagt fram á ný.