Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir að falli VIRK starfsendurhæfingarsjóður ekki frá þeirri ákvörðun sinni að hafna 200 milljóna króna framlagi ríkisins „verði allt kapp lagt á að tryggja fólki þá þjónustu sem það þarf hjá VIRK eða eftir öðrum leiðum“. Ráðherrann segir að það sé ekki hlutverk VIRK að safna peningum í sjóði og telur eðlilegt að lækka framlög til stofnunarinnar í ljósi þess að hún á varasjóð. Eygló ætlar að óska eftir fundi með stjórn VIRK sem fyrst til að halda áfram viðræðum um lausn á málinu. Þetta kemur fram í frétt á vef velferðarráðuneytisins sem var birt í dag.
Kjarninn greindi frá því á laugardag að VIRK muni ekki taka við einstaklingum sem standa utan vinnumarkaðar, eru á örorkulífeyri eða skjólstæðingar félagsmálastofana á árinu 2015 að óbreyttu. Þetta tilkynnti stjórnarformaður VIRK Eygló bréfleiðis á fimmtudag í kjölfar þess að fjárlög, sem gera ráð fyrir að framlag ríkisins til VIRK á næsta ári verði 200 milljónir króna, voru samþykkt. Samkvæmt lögum og samningum sem hafa verið undirritaðir átti framlag ríkisins til VIRK Að vera 1,1 milljarðar króna á næsta ári.
VIRK mun því ekki taka við þeim 200 milljónum króna sem sjóðnum er skammtað á fjárlögum. Í bréfinu segir ennfremur að nú liggi „fyrir að ríkið mun ekki að standa við samkomulagið og því er VIRK nauðbeygt til að tilkynna starfsendurhæfingarstöðvunum um breyttar forsendur þjónustukaupa á næsta ári“. Því muni VIRK „ekki geta tekið einstaklinga í þjónustu á árinu 2015 sem ekki er greitt iðgjald af í sjóðinn“.
Ríkið hefur ekki greitt sitt framlag
VIRK er eini starfsendurhæfingarsjóður landsins og samkvæmt lögum eiga atvinnurekendur, lífeyrissjóðir og íslenska ríkið að fjármagna hann. Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun en ekki opinber stofnun og því getur ríkið ekki tekið einhliða ákvörðun um niðurskurð hans.
Sama ár tók VIRK yfir samninga velferðarráðuneytisins við starfsendurhæfingarstöðvar um allt land fyrir um 400 milljónir króna á ári og hefur því greitt samtals 800 milljónir króna af útgjöldum á síðustu tveimur árum sem annars hefðu lent á ríkinu.
Ríkið hefur ekki greitt sitt framlag til VIRK hingað til og í fyrra var gert óformlegt samkomulag um að fresta framlagi ríkisins um eitt ár gegn því að það kæmi inn árið 2015. Sama ár tók VIRK yfir samninga velferðarráðuneytisins við starfsendurhæfingarstöðvar um allt land fyrir um 400 milljónir króna á ári og hefur því greitt samtals 800 milljónir króna af útgjöldum á síðustu tveimur árum sem annars hefðu lent á ríkinu.
Þegar fjárlög voru kynnt í haust var ekki gert ráð fyrir neinu framlagi til VIRK á árinu 2015 þrátt fyrir að sú upphæð hefði átt að vera 1,1 milljarður króna og að framlag ríkisins væri bundið í lög. Í kjölfar mótmæla stjórnar VIRK við þessu var ákveðið að framlagið yrði 200 milljónir króna án þess að sérstakar skýringar væru settar fram um hvernig sú tala væri fundin.
Ekki hlutverk VIRK að safna í sjóð að mati ráðherra
Í bréfi stjórnarformanns VIRK til félags- og húsnæðismálaráðherra, sem var sent síðastiðinn fimmtudag, kemur fram að viðræður við ráðherra og embættismenn hafi einkum verið mætt með „óbilgjörnum kröfum um mikinn niðurskurð í starfseminni, þrátt fyrir að hún hafi skilað miklum ávinningi til einstaklinga, ríkissjóðs, lífeyrissjóða og samfélagsins í heild[...]einkum virðist sá varasjóður sem byggður hefur verið upp með framlögum atvinnulífsins, og nauðsynlegur er til að mæta óvissri framtíð sjóðsins, vera þeim þyrnir í augum.
Varasjóðinn á að nota ef breytingar verða á starfsemi VIRK og vinda þarf ofan af henni. Þá á varasjóðurinn að standa undir kostnaði við þær breytingar.
Í fréttinni sem birtist á vef velferðarráðuneytisins í morgun er haft eftir Eygló Harðardóttur að það sé „ekki hlutverk VIRK að safna í sjóð og Alþingi lagði áherslu á þá afstöðu sína þegar lög um starfsenduhæfingarsjóði voru samþykkt. Það er ágreiningur um framlög þeirra þriggja aðila sem eiga að leggja sjóðnum til fé. Ég tel eðlilegt að lækka framlögin þannig að ekki verði óeðlileg sjóðssöfnum, aðhalds verði gætt í rekstrinum og að allir aðilarnir þrír greiði jafnt í sjóðinn.“