Vinna við húsnæðisfrumvörp er á lokametrunum, segir Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra. Hún svaraði fyrirspurn frá Heiðu Kristínu Helgadóttur, þingmanni Bjartrar framtíðar, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun.
„Hvað veldur því að þessi frumvörp eru ekki komin fram?“ spurði Heiða Kristín meðal annars, en húsnæðisfrumvarpanna hefur verið beðið. Þrjú frumvörp komu fram á síðasta þingi en náðu ekki langt í meðförum þingsins og hafa ekki verið lögð fram aftur. Heiða Kristín spurði ráðherrann einnig á hverju vinna við frumvörpin hefði strandað og um áhrif þeirra á deilur á vinnumarkaði, en frumvörpin voru hluti af loforðum ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir gerð kjarasamninga í vor.
„Við höfum verið í mjög miklu og nánu samstarfi við þá aðila sem komu að þessari yfirlýsingu um mótun þessara frumvarpa,“ sagði Eygló. „Þetta er á lokametrunum þannig að ég vænti þess að það geti skýrst núna á næstunni hvenær frumvörpin nákvæmlega koma fram í þinginu.“ Hún sagðist hafa lagt gífurlega mikla áherslu á það að allir lykilaðilar sem að málunum koma nái saman. „Það er hins vegar mjög flókið að gera nýtt, félagslegt leiguíbúðakerfi.“ Þeir sem að málunum hafi komið, sem meðal annars eru samtök á vinnumarkaði og sveitarfélög, hafi mismunandi sýn á þessi mál en verið sé að reyna að ná saman. „Það mun líka leiða til þess að það verði auðveldara fyrir þingið að vinna málið.“