Félagsmálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið hafa „náð saman um ramma“ um frumvörp félagsmálaráðherra um húsnæðismál. Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra greinir frá þessu í viðtali í Fréttablaðinu í dag.
Þar ræðir Eygló um húsnæðismál, en eins og Kjarninn hefur greint frá komst ekkert af þeim fjórum húsnæðisfrumvörpum sem Eygló og hennar ráðuneyti hefur unnið að í gegnum þingið. Meðal annars voru frumvörp hennar um húsnæðisbótakerfi og félagslegt leiguíbúðakerfi gagnrýnd af skrifstofu opinberra fjármála í fjármálaráðuneytinu auk þess sem Eygló og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tókust á um málin opinberlega.
„Fjármálaráðuneytið taldi okkur hafa dregið frumvörpin til baka, sem var síðan leiðrétt. Við höfum, ásamt aðilum vinnumarkaðar, verkalýðsfélögum og sveitarfé- lögum náð saman um ramma, frumvörpin koma aftur í haust og verða afgreidd fyrir áramót,“ segir Eygló í Fréttablaðinu. Kjarninn greindi frá því í vor þegar fjármálaráðuneytið sagði Eygló hafa dregið frumvörpin til baka, sem hún vísaði á bug.
„Við Bjarni erum ekkert alltaf sammála, sem er ekkert skrítið. Ég er félagsmálaráðherra og vil fá aukna fjármuni í minn málaflokk á meðan verkefni fjármálaráðherra eru að gæta að ríkissjóði. Eðli málsins samkvæmt er hann áhugasamari um að lækka skatta og borga skuldir.“
Eygló segist sannfærð um að henni takist að gjörbreyta húsnæðiskerfinu á Íslandi. „Lausnin er að bjóða upp á valkosti. Og við búum til kerfi sem hentar hverju einasta heimili á Íslandi,“ segir Eygló.
Hún segist þekkja ástandið á leigumarkaði vel af eigin raun og vegna ástandsins sé verið að leggja áherslu á að fjölga leiguíbúðum og ná niður leigunni. „Svo finnst mér gífurleg ósanngirni gagnvart þeim sem eru á leigumarkaði að húsaleigubætur hafa verið takmarkaðri en það sem við höfum verið að gera fyrir þá sem kaupa.“
Vill gera betur við öryrkja og aldraða
Eygló ræðir einnig um stöðu aldraðra og öryrkja, sem margir hafi talað um að verði eftir nú þegar gerðir hafa verið nýir kjarasamningar. „Við erum að taka risaskref varðandi hækkun bóta. Tæplega tíu milljarðar koma aukalega inn í almannatryggingar á næsta ári. Við ætlum okkur að gera betur. Það er nauðsynlegt. Ég hef talað skýrt fyrir því,“ segir Eygló um það mál. Hún segist líka sannfærð um að kjarabæturnar verði raunverulegar. „Ég er sannfærð um það. Við erum með öflugan hagvöxt, lítið atvinnuleysi og lága verðbólgu. Þannig að þessi skref eru að skila sér í raunverulegri kaupmáttaraukningu. Þetta er að mjakast og mikilvægt að fólk viti að við ætlum ekki að hætta. Með því að hafa afgang af ríkissjóði, borga niður skuldir okkar – það þýðir að við höfum meiri fjármuni að setja inn í velferðarkerfi.“