Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra segir það lykilatriði þegar kemur að kjaradeilum að bætt verði úr stöðunni á húsnæðismarkaðnum. Tvö af fjórum húsnæðisfrumvörpum hennar voru samþykkt úr ríkisstjórninni í dag og vonast er til þess að tvö til viðbótar verði samþykkt á fundi hennar á morgun. Þetta kom fram í viðtali við Eygló í kvöldfréttum RÚV.
Eygló sagði aðspurð að til greina komi að beita skattaívilnunum fyrir þá sem vilja kaupa sitt fyrsta húsnæði, eins og í raun er verið að gera með notkun séreignalífeyrissparnaðar í gegnum skuldaniðurfærsluaðgerðir ríkisstjórnarinnar. Hún sagði einnig koma til greina að aðstoða kaupendur fyrstu íbúða „með einhvers konar stofnframlögum, sambærilegt og við erum að hugsa um varðandi leigjendur.“ Það sé mikilvægt að koma til móts við þennan hóp fólks.
Hún sagði að á næstu dögum og vikum yrði farið í samræður í tengslum við deilur á vinnumarkaði og mikilvægt væri að ná sameiginlegri niðurstöðu.
Hún var þá spurð að því hvort þetta yrði innlegg ríkisstjórnarinnar í kjaradeildurnar. „Ég held að það hljóti að vera lykilatriði þegar kemur að því að ná samkomulagi á vinnumarkaðnum að við bætum úr stöðunni á húsnæðismarkaðnum, hún er alls ekki ásættanleg,“ sagði Eygló að lokum.