Í úttekt í Eyjafréttum, vikulegu blaði sem kemur út í Vestmannaeyjum, sem kom út í dag segir að Þjóðhátíð Vestmannaeyja og Eyjamenn hafi verið dregnir í svaðið í þættinum Vikulokunum á Rás 1 um liðna helgi vegna ákvörðunar Páleyjar Borgþórsdóttur, lögreglustjóra í Vestmannaeyjum, um að upplýsa fjölmiðla ekki um kynferðisbrot sem upp komu á Þjóðhátíð.
Í inngangi úttektarinnar, sem Ómar Garðarsson ritstjóri blaðsins skrifar, segir: „Það var ófögur mynd sem dregin var upp af þjóðhátíð Eyjamanna og þeim sjálfum í þættinum, Vikulokin á Rás eitt sl. laugardagsmorgun. RÚV ákvað að gefa skotleyfi á Páleyju Borgþórsdóttur og þjóhátíðina. Það vissi Helgi Seljan fyrir þegar hann valdi viðmælendur í laugardagsþátt sinn, allt valinkunnir Akureyringar sem gerðu sér kannski ekki grein fyrir því að um leið og þeir drógu Eyjamenn niður í svaðið lýstu þeir samfélagi kúgunar og ógna á Akureyri sem ég er ekki viss um að Akureyringar séu sáttir við. Það hentaði greinilega ekki að Eyjamenn ættu sér málsvara í þættinum og þegar viðmælendur náðu hvað hæstum hæðum þakkaði Helgi fyrir að þátturinn var tekinn upp á Akureyri en ekki Vestmannaeyjum.“
Í úttekt sinni rekur Ómar síðan samtal þáttastjórnandans Helga Seljan við gesti sína í Vikulokunum um liðna helgi, þau Björn Þorláksson, fyrrum ritstjóra Akureyri vikublaðs, Hildu Jönu Gísladóttur, sjónvarpsstjóra N4 og Svein Arnarsson, blaðamann Fréttablaðsins á Akureyri. Þar kom fram hörð gagnrýni á ákvörðun Páleyjar og látið í það skína að aðrir hagsmunir en þolenda hefðu ráðið því að hún ákvað að senda bréf til allra viðbragðsaðila sem komu að þjóðhátíð og biðja þá um að upplýsa fjölmiðla ekki um kynferðisbrot sem gætu komið upp á hátíðinni. Björn sagði að ríkir og frekir karlar stýrðu ákvörðuninni og hafi beitt valdi sínu til að fá fram jákvæðari umfjöllun um þjóðhátíð Vestmannaeyja. Hildur Jana sagði að henni liði eins „ og að manneskja í lögregluembætti sé í krafti embættis síns að verja fjárhagslega hagsmuni í Vestmannaeyjum“.
Í niðurlagi úttektarinnar um Vikulokarþáttinn í Eyjafréttum segir: „Það verður að teljast forkastanlegt að Eyjamenn áttu sér engan málsvara þarna. Það er nokkuð ljóst að þessu fólki sem þarna var samankomið er ekki sérstaklega hlýtt til Vestmannaeyinga eins og fullyrðing um að hér sé fólk með lægri siðferðisþröskuld staðfestir. Því var ekki mótmælt og stjórnandi [Helgi Seljan] þakkaði í framhaldinu fyrir að vera ekki í Vestmannaeyjum. Þarna opinberaðist viðhorf stofnunarinnar þegar kemur að því að ákveða hvað sé rétt og hvað ekki.“
Vert er að taka fram að ofangreind úttekt Eyjafrétta er merkt sem frétt, ekki skoðanaefni.
Segir RÚV taka nokkrar hátíðir upp á sína arma
Á næstu blaðsíðu er síðan efni með fyrirsögninni: „Galið að halda því fram að lögreglustjóri og Eyjamenn vilji þöggun“. Þar er um að ræða skoðanapistil eftir ritstjóra Eyjafrétta. Hann hefst á eftirfarandi orðum: „Það er allt í lagi að hafa skoðun á ákvörðun Páleyjar Borgþórsdóttur, lögreglustjóra og það má ræða en að halda því fram að hún eða aðrir Eyjamenn vilji þagga niður fréttir af kynferðisafbrotum er galið. Í umfjöllunni kemur hvergi fram það meginsjónarmið Páleyjar að markmiðið er að hlífa fórnarlömbum við fjölmiðlaumfjöllun á meðan fyrstu skrefin eru tekin í rannsókn mála.“
Ómar setur síðan fram fullyrðingu um að RÚV hafi tekið nokkrar hátíðir upp á sína arma og að ríkismiðilinn gangi hvað lengst þegar kemur að Menningarnótt og Gleðigöngunni. „Ég veit ekki um einn einasta Eyjamenn sem samgleðst ekki Reykvíkingum og öðrum gestum Menningarnætur og þeim sem mæta í Gleðigönguna þegar vel tekst til. En það getur verið allt að því pínlegt að fylgjast með umfjöllun RÚV um þessar ágætu hátíðir. Komast Eyjafréttir í jákvæðri umfjöllun um þjóðhátíð ekki með tærnar þar sem RÚV er með hælana með sínar hátíðir. Og það er passað upp á að vera ekki að rugla saman lögreglufréttum helgarinnar og fréttum af hátíðunum.“
Undirlagt undir jákvæða umfjöllun
Ítarlega umfjöllun er að finna um þjóðhátíð í blaðinu og sagt frá því að hún hafi gengið vel. Blaðið er nánast allt lagt undir jákvæða umfjöllun um þjóðhátið, gagnrýni á gagnrýni á ákvörðun lögreglustjórans og fréttum þar sem stuðningur við ákvörðunina kemur fram. Þar er til dæmis rætt við Jón Pétursson, sálfræðing og framkvæmdastjóra hjá Vestmannaeyjabæ, um ábyrga umræðu um fjölda kynferðisafbrotamála. Þar segist hann sjaldan hafa heyrt um fjölda kynferðisbrotamála í Reykjavík í fréttum.
Þá er frétt um hversu fyrirferðamikil hátíðin hafi verið í fréttum 365 miðla og hversu ánægðir dagskrárgerðarmenn fyrirtækisins hafi verið með hátíðína.
Þrjár konur hafa leitað til neyðarmóttöku kynferðisbrota á Landspítalanum í Fossvogi eftir Verslunarmannahelgina. Þær voru allar á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um liðna helgi.