Sprota og vaxtasjóður Eyrir Invest, Eyrir Sprota slhf., hefur lokið fyrsta áfanga fjármögnunar með þátttöku „öflugra“ fjárfesta, eins og segir í fréttatilkynningu frá Arion banka. Þar segir að Eyrir Sprotar hafi nú þegar fjárfest í nokkrum nýsköpunarverkefnum og fleiri verkefni til viðbótar séu til skoðunar hjá sjóðnum. Að loknum fyrsta áfanga fjármögnunar er stærð Eyris Sprota um 2,5 milljarðar króna.
Eyrir Sprotar er rekinn af Eyrir Invest í samstarfi við Arion banka, en Eyrir og Arion banki eru stærstu hluthafar sjóðsins. Aðrir fjárfestar eru lífeyrissjóðir og fagfjárfestar. Sjóðurinn á í viðræðum við nokkra áhugasama fjárfesta um þátttöku og er gert ráð fyrir að seinn hluta fjármögnunar verði lokað fljótlega, að því er fram kemur í fyrrgreindri fréttatilkynningu.
Í fjárfestingaráði Eyris Sprota eiga sæti Þórður Magnússon, sem jafnframt er formaður ráðsins, Hilmar Bragi Janusson, Kristín Guðmundsdóttir og Magnús Ingi Óskarsson. Hilmar er forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands og fyrrum framkvæmdastjóri vöruþróunar og rannsóknarstarfs hjá Össuri hf.. Kristín starfaði áður sem forstjóri og fjármálastjóri hjá Skiptum hf. og sem fjármálastjóri Granda hf.. Magnús Ingi Óskarsson var einn stofnenda Calidris sem var selt til hugbúnaðarfyrirtækisins Sabre Airline Solutions árið 2010. Þórður Magnússon er stjórnarformaður Eyrir Invest hf. og hefur komið að uppbyggingu fjölmargra sprotafyrirtækja.