Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks í Reykjavík, er hættur við að gefa kost á sér til að leiða lista flokksins í borginni fyrir komandi kosningar, sem fara fram í maí. Allt stefnir í að leiðtogaprófkjör verði haldið hjá Sjálfstæðisflokknum í febrúar og hafði Eyþór gefið út að hann sæktist áfram eftir oddvitasætinu að óbreyttu. Auk hans hafði Hildur Björnsdóttir, sem var í öðru sæti á listanum í kosningunum 2018, tilkynnt að hún vildi leiða listann. Enginn annar hefur sem stendur tilkynnt framboð í leiðtogasætið.
Í stöðuuppfærslu á Facebook sem birt var um miðnætti sagði Eyþór að honum hafi snúist hugur. Hann muni gegna skyldum sínum út kjörtímabilið og láta síðan af þátttöku í stjórnmálum að sinni.
Ákvörðunin sé tekin af persónulegum ástæðum, ekki pólitískum. „Ég er þess fullviss að Sjálfstæðisflokkurinn mun vinna góðan sigur í vor og þeir sem þekkja mig vita að ég óttast ekki niðurstöður í nokkru prófkjöri. Eins er rétt að árétta að ákvörðunin er algjörlega óháð því hvaða fyrirkomulag sjálfstæðismenn í Reykjavík kjósa að viðhafa við val á framboðslista eða hvaða einstaklingar munu gefa kost á sér í því vali.
Eyþór segir stóra og breiða forystusveit í Sjálfstæðisflokknum og að þar sé enginn hörgull á fólki til að taka við og leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs. „Það verður sigur Reykjavíkur og Reykvíkinga.“
Kæru vinir. Ég hef ákveðið að gefa ekki kost á mér á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum í...
Posted by Eyþór Laxdal Arnalds on Monday, December 20, 2021
Stefnir í leiðtogaprófkjör
Kosið verður um leiðtoga lista Sjálfstæðismanna fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík að óbreyttu. Það er sama leið og flokkurinn fór fyrir kosningarnar 2018 þegar Eyþór var valinn til að leiða lista flokksins. Þetta var ákveðið á fundi Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaga í Reykjavík, í síðustu viku. Eyþór var fylgjandi þeirri leið en Hildur á móti henni.
Fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins þarf að samþykkja leiðina til að hún verði að veruleika með 2/3 hluta atkvæða. Gangi það eftir verður kosið í kjörnefnd til að fylla önnur sæti á listanum.
Verði þessi leið ofan á mun kjörnefnd svo raða í önnur sæti að loknu leiðtogakjöri og fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins síðan taka afstöðu til þeirrar tillögu.
Árið 2018 sóttust, ásamt Eyþóri þau Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir, þáverandi borgarfulltrúar, Vilhjálmur Bjarnason fyrrverandi Alþingismaður og Viðar Guðjohnsen leigusali eftir því að leiða listann.
Enginn þeirra sem lutu í lægra haldi fyrir Eyþóri fékk sæti á lista flokksins í kjölfarið og eini sitjandi borgarfulltrúinn sem sat í efstu sætunum var Marta Guðjónsdóttir.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk 30,8 prósent atkvæða í þeim kosningum og átta borgarfulltrúa kjörna. Fyrir vikið varð hann stærsti flokkurinn í borginni á ný. Það dugði þó ekki til þar sem Samfylkingin, Viðreisn, Píratar og Vinstri græn mynduðu meirihluta og Dagur B. Eggertsson hélt áfram sem borgarstjóri.