Félag atvinnurekenda (FA) hefur sent atvinnuvegaráðuneytinu bréf þar sem krafa félagsins frá því í síðustu viku er ítrekuð, um að ráðuneytið endurgreiði innflytjendum búvöru útboðsgjald vegna tollkvóta, sem Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmd ólögmætt og í andstöðu við stjórnarskrá. Í bréfinu er ráðuneytið sakað um að valda neytendum tjóni með því að bregðast ekki við í málinu.
Þetta kemur fram í frétt inn á vefsíðu FA.
Félagið sendi ráðuneytinu bréf þessa efnis þann 23. mars síðastliðinn, sem ráðuneytið hefur í engu brugðist við, að því er fram kemur í bréfinu sem félagið sendi ráðuneytinu í dag.
Í ítrekunarbréfi FA til atvinnuvegaráðuneytisins segir: „Alls er um hundraða milljóna króna hagsmuni að ræða fyrir íslenzk heimili. Eins og fram kom í fyrra bréfi FA munu allar tafir á endurgreiðslu óhjákvæmilega valda neytendum frekara fjárhagslegu tjóni. Það væru ekki úr vegi að ráðuneytið skýrði að minnsta kosti fyrir neytendum hvort og þá hvers vegna það hyggist af eindregnum ásteningi stuðla að slíku tjóni með því aðhafast ekkert í málinu.“
Að lokum ítrekar FA afstöðu sína að atvinnuvegaráðuneytinu beri að endurgreiða innflutningsfyrirtækjum öll þau útboðsgjöld sem þau hafa greitt fyrir ónýttar innflutningsheimildir. „Jafnframt er ítrekuð sú krafa að þessi endurgreiðsla fari tafarlaust fram til að lágmarka tjón neytenda.“