Það var vissulega óvænt ánægja að heyra Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra, tala fyrir endurskoðun á hvalveiðistefnu Íslendinga á dögunum. Ráðherrann segir Íslendinga litna hornauga á alþjóðlegum vettvangi fyrir hvalveiðarnar og að fulltrúum þjóðarinnar sé ekki boðið á suma fundi og ráðstefnur um málefni hafsins sökum þessa.
„Við eigum ekki að gefa eftir réttinn til að nýta þessa auðlind frekar en hverja aðra. En það er umhugsunarefni fyrir okkur hvort við ættum ekki að koma til móts við alþjóða hvalveiðiráðið til að mynda með því að veiða færri hvali árlega en við gerum nú,“ sagði Skagfirðingurinn óvenju hófstilltur og skynsamur í fjölmiðlum.
En viti menn. Eins og svo oft áður þegar umræðan hefur daðrað við endurskoðun á hvalveiðum við Ísland, þá spratt Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður atvinnuveganefndar Alþingis, á fætur og varði hvalveiðarnar með kjafti og klóm. Og ekki nóg með það, því hann vill auka veiðarnar líka.
Eins og fram hefur komið er sonur formanns atvinnuveganefndar hrefnuveiðimaður og útgerðarmaður og er, eða var að minnsta kosti um tíma, formaður Félags hrefnuveiðimanna. Nú mætti spyrja hvort Jón Gunnarsson telji sig ítrekað hæfan til að tjá sig um hvalveiðar á opinberum vettvangi í ljósi þessa, eða er jafn grímulaus hagsmunagæsla bara í lagi? Væri ekki bara smekklegra að berjast fyrir hagsmunum sonar síns á bakvið tjöldin?
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.