Margir bílaframleiðendur hafa á undanförnum misserum breytt áherslum sínum allnokkuð og einbeita sér að því að framleiða dýrari bíla, fremur en ódýrari ökutæki.
Þessar áherslubreytingar eru ekki komnar til af góðu, en skortur hefur verið á hálfleiðurum eða tölvukubbum (e. semiconductors) í heiminum vegna truflana í framleiðslukeðjum vegna kórónuveirufaraldursins. Stríðið í Úkraínu og áframhaldandi veirulokanir í Kína hafa enn ýtt undir hallærið.
Það hefur því einungis hægt að framleiða takmarkaðan fjölda bíla vegna skorts á tölvukubbum og öðrum nauðsynlegum íhlutum.
Framleiðendur ná vart að sinna eftirspurn eftir nýjum bílum vegna allra þessara truflana og hafa margir hverjir einbeitt nú sem áður segir sér að því að nota íhlutina sem skortur er á í dýrari gerðir ökutækja.
Þetta sést glögglega í afkomutölum bílaframleiðendanna, en í samantekt sem endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtækið EY vann fyrr á árinu mátti sjá að á síðasta ári juku 16 stærstu bílaframleiðendur heims samanlagðan hagnað sinn um 168 prósent frá árinu 2020 – og nam hann 134 milljörðum evra.
Hagnaðurinn jókst þetta mikið þrátt fyrir að sala nýrra bíla hafi einungis vaxið um 1,2 prósent frá árinu 2020, sem var sögulega slappt ár í sölu nýrra bíla.
11 prósent samdráttur í sölu – 19 prósentum meiri hagnaður
Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs jókst samanlagður hagnaður þessara sextán stærstu bílaframleiðenda svo enn frekar, eða um 19 prósent frá sama tímabili í fyrra, þrátt fyrir að fjöldi nýrra seldra bíla hafi dregist saman um heil 11 prósent, samkvæmt úttekt EY sem birt var í lok maí.
Hagnaðurinn nam 34 milljörðum evra og er ársfjórðungurinn í því tilliti sá besti í sögunni hjá bílaframleiðendum.
Í greiningu EY á afkomutölum fyrirtækjanna kemur fram að staðan sé mjög góð hjá þeim framleiðendum sem gera öðru fremur út á lúxusbíla. Volkswagen hagnaðist mest allra framleiðenda á fyrsta ársfjórðungi og var einnig ofarlega hvað framlegð varðar, en framlegðin var 13,3 prósent samkvæmt samantekt EY. Rafbílaframleiðandinn Tesla var hins vegar með mesta framlegð allra framleiðenda, eða 19,2 prósent.
Komið til að vera?
Nokkrir bílaframleiðendur hafa beinlínis sagt að þeir ætli nú að vinna áfram eftir þeirri sömu stefnu sem skorturinn á tölvukubbum hefur þvingað þá í á undanförnum misserum. Stefnan er sett á framlegð fremur en markaðshlutdeild hjá fyrirtækjum á borð við Mercedes Benz og Volkswagen.
Mercedes Benz tilkynnti í maí að fyrirtækið ætlaði að breyta vöruframboði sínu nokkuð og leggja aukna áherslu á að framleiða lúxusbíla. Framleiðslu sumra ódýrari gerða Benz-bifreiða verður í staðinn hætt.
Volkswagen jók hagnað sinn um 75 prósent í fyrra, þrátt fyrir að selja um 600 þúsundum færri ökutæki en árið 2020. Þýski risinn, sem hefur um árabil verið í slag við Toyota um mestu markaðshlutdeild framleiðenda, ætlar að halda áfram á þessari braut og hefur lagt áherslu á að nýta íhlutina sem hægt er að fá í lúxusbíla sem seldir eru undir merkjum Porsche og Audi fremur en að dæla sömu takmörkuðu íhlutum í ódýrari bíla undir merkjum Volkswagen eða framleiðslu bíla frá Seat eða Skoda.
Í nýlegri hlaðvarpsumfjöllun Financial Times um þessar sviptingar hjá Volkswagen sagði Joe Miller, fréttaritari miðilsins í Frankfurt, að ódýrir bílar væru margir hverjir á leiðinni út af markaði á næstu árum.
„Lokaniðurstaðan gæti orðið sú, þvert á upphafleg markmið Volkswagen um að koma bílum til allra heimila, að við gætum séð þessa þróun snúast við og að bílar verði á ný lúxusvara,“ sagði Miller.