Sakamálum sem komu til kasta héraðsdómstóla á Íslandi fækkaði um tæpan helming milli áranna 2011 og 2014. Árið 2011 voru ný sakamál sem rötuðu fyrir dómstóla 5.122 en 2.597 í fyrra. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Þar er rætt við Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóra lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, um þær ástæður sem búi að baki þessari fækkun. Hann segir ástæðuna meðal annars vera aukið eftirlit með síbrotamönnum og nú sé gripið til mjög öflugra aðgerða til að stemma stigu við að þeir geti haldið áfram óáreittir í sínum glæpum. Á meðal þeirra aðgerða eru aukið eftirlit með rofi síbrotamanna á reynslulausnm, beiting síbrotagæslu og reynt er að hraða afgreiðslu mála í dómskerfinu þegar menn með langan brotaferil brjóta af sér.
Það gæti þó líka skýrt hvers vegna sakamálum hefur fækkað að hluti brotastarfsemi hefur færst í auknum mæli á netið. Þar nefnir Jón til að mynda viðskipti með ólöglegan varning, fjársvikamál og kynferðisafbrotamál. Það kalli á breytt verklag hjá lögreglu og að sögn Jóns þarf hún "að koma sér upp þekkingu og færni þar".
Að lokum nefnir Jón þá ástæðu að málum sem lögreglan hefur rannsókn á að eigin frumkvæði hafi mögulega fækkað í niðurskurði undanfarinna ára.